Segja fengsæl fiskimið í hættu í Eyjafirði

Deila:

Smábátafélagið Klettur leggst alfarið gegn hugmyndum um sjókvíaeldi í Eyjafirði. Þetta kemur fram í umsögn um tillögu stjórnvalda um uppbyggingu og umgjörð lagareldis til ársins 2040. Hægt er að senda inn umsagnir í samráðsgátt stjórnvalda.

Í umsögninni segir að í Eyjafirði séu fengsæl fiskimið smábáta í hættu ef áframeldiskvíar í sjó verði leyfðar.

Klettur hefur sent frá sér eftirfarandi umsögn:

„Smábátafélagið Klettur leggst alfarið gegn hugmyndum um sjókvíaeldi á fiski í Eyjafirði.
Í gegnum tíðina hafa ýmsir aðilar gert alls konar tilraunir til eldis í Eyjafirði í skjóli veikra laga og reglna um þennan málaflokk. Eftir hefur setið gríðarlegt magn af rusli og drasli bæði í sjó og fjörum sem engin virtist vera gerður ábyrgur fyrir.
 
Þess fyrir utan hafa nýleg dæmi sannað að sjókvíaeldi á ekki rétt á sér. Þar er mikil hætta á umhverfismengun svo sem varðandi úrgang frá slíku eldi, slysasleppingum, laxalús og fleiri sjúkdómum sem fylgja fiskeldi í sjó.
 
Í Eyjafirði eru fengsæl fiskimið smábáta sem eru í hættu ef áframeldiskvíar í sjó verða leyfðar. Þá eru margar vinsælar veiðiár á svæðinu sem eru í hættu ef til slysasleppinga kemur líkt og oft hefur gerst.
 
Smábátafélagið Klettur hefur varnarþing frá Siglufirði í vestri, að Tjörnesi í austri og leggst alfarið gegn áframeldi að nokkrum toga í Eyjafirði.
Deila: