Verðhrun á ferskum karfa í Þýskalandi

Deila:

Seljendur karfa frá Íslandi fengu nær 40% minna fyrir fiskinn á markaði í Þýskalandi í fyrstu söluviku eftir að sjómannaverkfallið leystist (27. febrúar til 3. mars) en á sama tíma í fyrra. Kílóverðið hrapaði í evrum talið og við bættust svo áhrif af háu gengi íslenskrar krónu. Sömu sögu er að segja af karfasölu á markaði í Frakklandi samkvæmt frétt á heimasíðu Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum.

Karfi er vinsælasti fiskurinn í Þýskalandi og í hávegum hafður meðal katólikka þar í landi og annars staðar í álfunni á föstu og sér í lagi í dymbilviku í aðdraganda páskahátíðar.

Rík hefð er þannig fyrir karfa á borðum fyrir páska og þessi árstími ætti að vera besti sölutími fyrir karfa á meginlandinu. Núna ríkir hins vegar óvissuástand á verulega löskuðum mörkuðum vegna áhrifa sjómannaverkfallsins og fiskþurrðar frá Íslandi vikum saman.

VSV Alf-olai

„Það tekur sennilega langan tíma að ná fyrri stöðu með íslenskan fisk meðal kaupenda og neytenda og einmitt núna bíð ég spenntur eftir því að sjá hvað gerist með karfaverðið þegar nær dregur páskum,“ segir Alf-Olai Ingebrigtsen hjá About fish GmbH, sölufyrirtæki Vinnslustöðvarinnar í Þýskalandi.

„Menn hér um slóðir botnuðu ekkert í því sem var að gerast á Íslandi og spurðu undrandi hvort verkfallsmenn gerðu sér ekki grein fyrir afleiðingunum út á við fyrir íslenskan sjávarútveg og sjávarafurðir.

Auðvitað hafði svona langt stopp mikil áhrif og hefur enn. Færeyingar náðu til dæmis ágætum árangri í karfasölu í Þýskalandi og Frakklandi í janúar. Norðmenn lögðu aukinn kraft og fjármuni í að selja Lófótþorskinn sinn (skrei) og stórmarkaðir reyndu að fylla í skörðin með afrískum ferskvatnskarfa úr Viktoríuvatni.

Vissulega hefur dregið aftur úr framboði á Afríkukarfa eftir að íslenski fiskurinn fór að berast hingað á nýjan leik en mikið framboð frá Íslandi framkallaði verðfall, eins og við mátti búast. Verðið er eiginlega svo lágt að varla er siðlegt fyrir góða vöru.

Þannig er ástandið og við höfum ekki fengið til baka marga viðskiptavini sem fóru að kaupa annan fisk og aðrar matvörur í stað íslensks fisks á meðan verkfallið varði. Vonandi skila þeir sér samt aftur.“

 

Deila: