Góðir túrar og fínn fiskur

Deila:

Vel hefur veiðst eftir að sjómannaverkfallinu lauk. Ísfisktogarar HB Granda hafa aflað vel og að sögn Heimis Guðbjörnssonar, skipstjóra á Helgu Maríu AK, í samtali á heimasíðu HB Granda, hefur fiskurinn verið mjög góður. Helga María er búin að fara tvo fullfermistúra eftir að verkfallinu lauk og var að leggja upp í þann þriðja er rætt var við Heimi.

,,Við höfum einbeitt okkur að vertíðarsvæðinu hér fyrir sunnan. Í síðasta túr vorum við með 185 tonna afla, sem er fullfermi, og aflinn var ufsi, karfi og þorskur. Ufsinn hefur verið að gefa sig til á litlum blettum og ef maður hittir á þá má fá góðan afla. Við fengum t.d. góðan ufsaafla syðst á Eldeyjarbankanum í fyrri túrnum og svo á Tánni, sem er vestast á Selvogsbankanum, í síðasta túr. Þetta eru hefðbundin vertíðarsvæði og fiskurinn er vænn og vel á sig kominn,“ segir Heimir en hann skýtur á að meðalvigtin á ufsanum sé fimm til sex kíló á meðan megnið af þorskaflanum sé fiskur á milli þrjú og fimm kíló.

Að sögn Heimis bar ekki á því að þorskurinn eða ufsinn hefðu verið í loðnuáti þótt mikið magn af loðnu hafi gengið fyrir Reykjanes á undanförnum dögum.

,,Þegar það styttist í hrygninguna þá hættir fiskurinn að éta og þess vegna ætti að vera skammt að bíða þess að þessi fiskur, sem þarna var á ferðinni, hrygni,“ segir Heimir Guðbjörnsson.

Deila: