Ráðstefna um fiskeldi og skeldýra- og þörungarækt

Deila:

Strandbúnaður, ráðstefna fyrir fiskeldi, skeldýra- og þörungarækt verður haldin á Grand Hótel Reykjavík dagana 13. – 14. mars 2017. Samtals verða átta málstofur og flutt verða tæplega 50 erindi. Meðal annars verður fjallað um ræktun smáþörunga og bláskel.

Ræktun smáþörunga er atvinnugrein á bernskuskeiði. Á Íslandi eru fimm fyrirtæki að rækta smáþörunga, eitt þeirra var komið með vörur á markað árið 2016.  Ræktun smáþörunga á Íslandi fer fram í lokuðum kerfum. Þó slík ræktun sé dýrari borið saman við ræktun í opnum kerfum þá felur hún í sér aukið rekstraröryggi og hreinleika sem skilar hærra vöruverði á markaði. Á ráðstefnunni verður fjallað um ræktunartæknina sem notuð er á Íslandi, vöruþróun úr smáþörungum, og áskoranir og tækifæri sem eru framundan.

Stórþörungar hafa lengi verið nýttir sem fóður og fæða hérlendis og þeir hafa einnig í miklum mæli verið seldir sem þurrkuð hrávara bæði á innlendum og erlendum markaði. Fyrirtækjum sem framleiða verðmætar vörur úr þessu hráefni fer fjölgandi. Fjallað verður um magn nýtanlegra stórþörunga, nýtingu þeirra, virðisaukningu og vinnslutækni.

Bláskel hefur verið ræktuð samfellt á Íslandi um árabil en með misjöfnum árangri þó. Framleiðslan hefur ekki dugað til að anna eftirspurn innanlands sem fer ört vaxandi og ennfremur eru mikil tækifæri framundan í útflutningi. Nýlega skilaði starfshópur um bláskeljarækt tillögum til sjávarútvegsráðherra og verður gerð grein fyrir niðurstöður hópsins. Umfang einstakra fyrirtækja er lítið og kostnaður við mælingu heilnæmis bláskeljar fyrir uppskeru vegur þungt í rekstrinum. Farið verður yfir verklag við opnun svæða og leiðir til að draga úr kostnaði við mælingar á heilnæmi bláskeljar. Ýmsar aðferðir við ræktunartækni hafa verið reyndar hér á landi og komið verður með tillögur um aðferðir sem talið er að geti hentað á Íslandi við uppbyggingu greinarinnar á næstu árum.

Wim Bakke

Einn fyrirlesara er Wim Bakker sem hefur um áratugaskeið starfað við sölu á búnaði og lausnum fyrir skeldýraræktarfyrirtæki. Fyrirtæki hans, Bakker Machinefabrik, er með höfuðstöðvar í Yerseke í Hollandi þar sem langflest skelræktarfyrirtæki Hollands eru samankomin með vinnslustöðvar.

Deila: