Fyrsta veiðiferð Blængs eftir breytingar

Deila:

Blængur NK hefur verið um 12 daga að veiðum í fyrstu veiðiferð eftir gagngerar breytingar á skipinu í Póllandi og á Akureyri. Skipið kom til Akureyrar í gærmorgun og landaði einum gámi af þorski auk þess sem þar var unnið að nokkrum lagfæringum og breytingum á vinnsludekki.

Haft var samband við Bjarna Ólaf Hjálmarsson skipstjóra á heimasíðu SVN og hann spurður hvernig veiðiferðin hefði gengið. „Þessi veiðiferð er fyrst og fremst hugsuð til að prófa allan búnað um borð. Veiðarfæri og veiðibúnaður allur hefur reynst vel og skipið einnig, en það hefur þurft að vinna að ýmsum breytingum á vinnsludekkinu eins og reyndar allir áttu von á. Sérhver lagfæring á búnaði á vinnsludekki hefur skilað sér og þar hefur allt gengið betur dag frá degi.

Við höfum að undanförnu verið að veiðum úti fyrir Norðurlandi og þar hefur mokveiðst af ufsa og þorski. Við höfum togað stutt á hverjum sólarhring og síðan látið reka á meðan aflinn er unninn. Ég reikna með að við verðum viku til viðbótar í þessum fyrsta túr eftir breytingar á skipinu,“ sagði Bjarni Ólafur.

 

Deila: