Minni útflutningur á þorski frá Noregi

Deila:

Útflutningur Norðmanna á þorski, bæði ferskum og frystum, dróst saman í síðasta mánuði, þrátt fyrir verkfall sjómanna á Íslandi á sama tíma og litla samkeppni héðan á afurðamörkuðunum ytra. Líklegt hefði mátt telja að Norðmenn nýttu sér takmarkaðan útflutningi héðan til að auka útflutning sinn, en svo virðist ekki hafa verið raunin.

Norðmenn fluttu utan 12.600 tonn af ferskum þorski í febrúar að verðmæti 5,4 milljarðar íslenskra króna. Það er 1.200 tonnum minna en í sama mánuði í fyrra. Verðmæti útflutningsins lækkaði um 165 milljónir íslenskra króna eða 3% þrátt fyrir verðhækkun á þorskafurðaverði um 6% að meðaltali.

Útflutningur á frystum þorskafurðum var 6.300 tonn að verðmæti 2,8 milljarðar króna, samdráttur um 1.000 tonn í magni og 101 milljón króna, eða 4% í verðmætum. Á fyrstu tveimur mánuðum ársins fluttu Norðmenn út 15.000 tonn af frystum þorski að verðmæti 6,2 milljarðar íslenskra króna.

Betur gekk í útflutningi á þurrkuðum flöttum saltfiski sem náði 6.800 tonnum í febrúar. Verðmætið var 3,5 milljarðar. Aukning í magni varð 2.000 tonn og verðmætið hækkaði um 849 milljónir. Þar spilar inn í hagstæð þróun á gengi

Sala á blautverkuðum saltfiski dróst saman um 800 tonn og varð 2.000 tonn að verðmæti einn milljarður sem er samdráttur um 24%. Mest af þessum fiski fór til Grikklands og Portúgal.

 

Deila: