20 þúsund tonn af kolmuna til vinnslu

Deila:

Kolmunaskipafloti Síldarvinnslunnar er kominn til hafnar. Á vef fyrirtækisin segir að veður á miðunum hafi verið afar slæmt og dregið hafi úr veiði. „Reyndar fékk Beitir NK 320 tonna hol áður en haldið var til hafnar og var það meira en hin skipin fengu. Barði NK landaði rúmlega 800 tonnum í Neskaupstað í gærkvöldi og Beitir er að landa þar tæplega 900 tonnum í dag. Þá er Börkur NK að landa tæplega 1.800 tonnum á Seyðisfirði,” segir í færslunni.

Fram kemur að þegar þessi skip verða búin að landa verði 20 þúsund tonn af kolmuna komin til vinnslu það sem af er árinu. Vinnslan hefur að sögn gengið vel. Hráefnið hafi verið í háum gæðaflokki. Gert er ráð fyrir að kolmunaveiðum ljúki senn.

Deila: