SAFE Seat vann Gulleggið

Deila:

Úrslit í Gullegginu, stærstu frumkvöðlakeppni landsins, voru kynnt í Hörpu laugardaginn 11. mars en Marel er einn af bakhjörlum keppninnar. Gulleggið er haldið á vegum Icelandic Startups í samstarfi við stærstu háskóla landsins með stuðningi lykilaðila í íslensku atvinnulífi.

Í ár bárust í keppnina 123 viðskiptahugmyndir og þar af 45 viðskiptaáætlanir sem lesnar voru yfir af hátt í 100 manna rýnihóp sem skipaður var til jafns konum og körlum með fjölbreyttan bakgrunn. Þau tíu lið sem voru valin til að keppa til úrslita í Gullegginu 2017 voru:

Barnamenningarhús – Barnamenningarhús er samastaður menningar fyrir börn á Íslandi

BlissApp – Frelsi til samskipta

Eiderway – Natures best answer to isolation

Fjölskyldumyllan – Ráðgjafafyrirtæki sem kemur að öllu er varða uppeldi og umönnun barna

HappaGlapp – App sem gefur!

Lab Farm – Sharing computational resources through the academic community

League Manager – Tournament management through a mobile application

Procura Home – Seldu sjálfur – vefrænt sölu- og verðmatskerfi fasteigna

Project Monsters – Video game designed to speed up skill acquisition

SAFE Seat – Ódýra fjaðrandi bátasætið

Eliza Reid forsetafrú og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, Ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, afhentu Gulleggið 2017 að þessu sinni. Í fyrsta sæti var SAFE Seat en þau hanna fjaðrandi bátasæti sem verndar hryggsúluna í erfiðu sjólagi. Þau hlutu að launum 1.000.000 kr. styrk frá Landsbankanum og að auki 10 klst. sérfræðiráðgjöf hjá Marel.

Í öðru sæti voru S.Stefánsson & Co. sem hanna hágæða útivistarfatnað sem er einangraður með íslenskum æðardúni. Í þriðja sæti voru Project Monsters sem búa til einstaklingsmiðaðan leik sem eykur námsfærni og -skilning og er ætlað að veita skólum forskot inn í framtíðina.

Gulleggið fór fyrst fram árið 2008 en frá þeim tíma hafa um 2500 hugmyndir borist í keppnina. Fjölmörg fyrirtæki sem náð hafa eftirtektarverðum árangri hafa stigið sín fyrstu skref í Gullegginu. Þar á meðal má nefna Meniga, Karolina Fund, Videntifier, Clara, Controlant, Nude MagaSolid Clouds, Radiant Games, Betri svefn, Pink Iceland, o.fl.

 

Deila: