Kolmunnavertíðin komin á fullt

Deila:

Kolmunnaveiðin í færeysku lögsögunni hófst almennt hjá íslensku skipunum um miðja síðustu viku. Kolmunninn var þá að byrja að skríða inn í lögsöguna en fyrstu dagana eftir að veiðar hófust var ekki mikið að sjá. Hægt og bítandi jókst þó það sem sást og að því kom að alvöru lóð voru sjáanleg.

Börkur NK kom með 2.250 tonn til Neskaupstaðar í gær og hélt hann strax til veiða á ný að löndun lokinni. Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi við Hjörvar Hjálmarsson skipstjóra í morgun en þá var Börkur staddur í brælu um 80 mílur norðvestur úr Mykinesi. „Þegar við héldum í land með þennan afla var þetta farið að líta vel út á miðunum og við höfðum fréttir af því að mikið af fiski væri sunnan línunnar. Þessi fiskur á eftir að koma inn í færeysku lögsöguna og vonandi er hörkuvertíð að hefjast,“ sagði Hjörvar.

Bjarni Ólafsson AK kom í gær með tæplega 1.700 tonn til löndunar á Seyðisfirði og í nótt kom Beitir NK þangað með um 3.000 tonn. Að sögn Gunnars Sverrissonar verksmiðjustjóra hófst vinnsla strax í fiskimjölsverksmiðjunni og sagði Gunnar að hér væri um fínasta hráefni að ræða. „Vonandi eiga veiðarnar eftir að ganga eins og í sögu, það er alla vega nægur kvóti,“ sagði Gunnar.

Pólska skipið Janus (áður Birtingur/Börkur) er væntanlegt til Neskaupstaðar í dag með 1.350 tonn af kolmunna og í kjölfar hans kemur Hákon EA með 1.650 tonn.

Eins og sést á framansögðu má segja að kolmunnavertíð sé hafin af fullum krafti.

Á myndinni er Beitir að landa á Seyðisfirði. Ljósmynd Hákon Etnuson.

 

Deila: