Siglir Sæbjörg ei meir?

Deila:

Ólíklegt er að Sæbjörgin, öðru nafni Slysavarnaskóli sjómanna, fari oftar í hringferð um landið. Til að svo gæti orðið þyrfti að fara í kostnaðarsamar viðgerðir á skipinu, sem Hilmar Snorrason skólastjóri segir að ekki liggi fyrir ákvörðum um að ráðist verði í.

Í mörg ár fram til 2008 voru haldin námskeið fyrir sjómenn um borð í Sæbjörg víða á landsbyggðinni yfir sumarmánuðina. Eftir hrun var ekkert siglt fyrr en árið 2014 að farið var í hringferð um landið. „Síðan höfum við ekkert farið og til að við hreyfum okkur frá Austurbakkanum þarf að fara í stóra viðgerð, sem ég efast um að farið verði í vegna kostnaðar enda er skipið orðið tæplega 43 ára gamalt,“ segir Hilmar í samtali við Morgunblaðið í dag.

Að sögn Hilmars er komin tæring í svokallaðan tanktopp á sjótank neðst í skipinu. Til að komast að honum þyrfti m.a. að rífa kennslustofur og vistarverur í skipinu og það sé mikið fyrirtæki. Hann segir að skrokkurinn sjálfur sé í góðu lagi og sömuleiðis vélbúnaður.

Alþjóðleg réttindi uppfærð

Mikið hefur verið að gera í Slysavarnaskólanum í vetur og fullt á öll námskeið. Frá áramótum hafa meðal annars verið haldin námskeið til að uppfæra alþjóðleg réttindi, en kröfur þar um breyttust í byrjun janúar. Hilmar segir að þetta eigi bæði við um innlend og erlend flutningaskip og fiskiskip, sem skráð eru í öðrum löndum. Talsvert sé af íslenskum sjómönnum á erlendum skipum.

Tíu manns starfa hjá Slysavanaskóla sjómanna, sem Slysavarnafélagið Landsbjörg á og rekur. Sumarið 1998 gaf ríkið félaginu ferjuna Akraborg til nota fyrir starfsemi Slysavarnaskóla sjómanna og var skipið nefnt Sæbjörg, en það var smíðað í Þrándheimi 1974.

Deila: