Erlend skip með 78.600 tonn af loðnu

Deila:

Færeysk og norsk skip stunduðu loðnuveiðar innan lögsögunnar á fyrstu mánuðum ársins líkt og undanfarin ár. Alls lönduðu fimm færeysk loðnuveiðiskip afla af Íslandsmiðum, alls 7.507 tonnum. Aflahæsta skipið var Finnur Fríði með 2.975 tonn og næst kom Norðborg með 1.845 tonn. Á vertíðinni lönduðu norsk loðnuveiðiskip 59.382 tonn. Alls stunduðu 41 norsk skip veiðar hér við land á nýliðinni vertíð og var Österbris aflahæst með 1.356 tonn og Gerda Marie með 1.274 tonn. Norsku skipin veiddu alls 24.916 tonn og lönduðu þau öllum aflanum í íslenskum höfnum.

Tvö grænlensk skip, Polar Amaroq og Qavak veiddu loðnu á Íslandsmiðum á þessari vertíð og var samanlagður afli þeirra  á tveimur fyrstu mánuðum ársins 11.712 tonn þar af veiddi Polar Amaroq 10.178 tonn.

Alls stunduðu fjórir færeyskir bátar veiðar á botnfisk í íslenskri lögsögu í febrúar og lönduðu alls átta sinnum. Sex landanir fóru fram í íslenskum höfnum og tvær í Færeyjum.

Aflahæstur færeysku bátanna var Skörin með 101,2 tonn og Sandshavið með 95,2 tonn. Alls veiddu færeysk skip 149 tonn af þorski og 109 tonn af ýsu í síðasta  mánuði.

Færeysku línubátarnir hófu veiðar fyrr á þessari vertíð en þeirri síðustu en þá landaði Sigmund fyrstur færeyskra línubáta þann 7. mars. Á þessari vertíð voru færeysku bátarnir  mánuði fyrr á ferð og landaði Jákup B  þann 6. febrúar sl. alls 73 tonnum af botnfisk í Ólafsvíkurhöfn.

 

Deila: