Eyjarnar gera það gott

Deila:

Vestmannaey VE og Bergey VE hafa fiskað afar vel það sem af er ári. Afli skipanna var 2.900 tonn af slægðum fiski fyrstu þrjá mánuði ársins og var aflaverðmætið um 640 milljónir króna. Er þetta mesti afli sem skipin hafa fært að landi á þremur fyrstu mánuðum árs en það ár sem næst kemst hvað afla varðar er 2009 en þá var afli skipanna rúmlega 2.500 tonn. Hvað aflaverðmæti varðar kemst árið 2015 næst en þá var það rúmlega 630 milljónir. Það er Bergur-Huginn, dótturfyrirtæki Síldarvinnslunnar,  sem gerir út Eyjarnar en sagt er frá þessu á heimasíðu Síldarvinnslunnar.

Í marsmánuði sl. veiddu skipin tæplega 1.140 tonn en þau voru hvort um sig einungis 16 daga á sjó, þannig að meðalafli hvors skips var 36 tonn á dag. Aflasamsetningin í marsmánuði er býsna fjölbreytt en skipin komu alls með 22 tegundir að landi. Þorskur var 35% aflans, ýsa 23%, ufsi 14%, karfi 10% og lýsa 3,5%.

Frá því í febrúarmánuði hefur helsta veiðisvæði skipanna verið í kringum Vestmannaeyjar og því hefur ekki þurft að sigla langt á miðin. Í marsmánuði fór hvort skip tvær veiðiferðir í viku og tók hver veiðiferð að meðaltali innan við tvo sólarhringa. Ekki var óalgengt að landað væri fullfermi að lokinni 30 tíma veiðiferð.

 

Deila: