Þrír að frysta fyrir norðan

Deila:

Enn er töluvert óveitt úr loðnukvóta þessarar vertíðar þó sum skip hafi lokið veiðum eða eigi lítið eftir af heimildum. Samkvæmt aflastöðulista Fiskistofu nú um hádegið er búið að skrá landanir á 127.630 tonnum og standa því eftir 68.445 tonn. Gera má ráð fyrir að þessar tölur breytist eftir daginn í dag því nokkur skip eru að landa töluverðum afla nú.

Nýja loðnugangan fyrir norðan land gefur auknar vonir um að heildarkvótinn náist. Loðna fyrir norðan er styttra á veg komin til hrygningar, en hentar vel til frystingar. Nokkur skip tóku þar afla í gær og í dag voru Hákon, Polar Amaroq og Tasilaq þar að frysta og fleiri skip voru á miðunum eða á leið þangað. Engin skip voru þá á  miðunum úti af Látrabjargi.

Miðað við aflastöðulista Fiskistofu eru Beitir og Heimaey bæði með tæp 11.000 tonn, en bæði skipin eru að landa í dag. Þá er búið að skrá rúm 10.000 tonn á Venus.
Aðalsteinn Jónsson hefur lokið veiðum svo og Vilhelm Þorsteinsson. Afli hans er skráður 7.044 tonn, en af honum hafa verið flutt 8.876 tonn, 6.000 á Margréti og 2.800 á Bjarna Ólafsson.

Deila: