Deila:

 

Nítjánda útskrift Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna

 

Í dag, mánudaginn 13. mars 2017,  kl. 15:00 verður 19. árgangur Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna útskrifaður. Sérstakur gestur við útskriftina verður  Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra.

Sex mánaða nám á Íslandi fyrir starfandi sérfræðinga í samstarfslöndum er helsta verkefni skólans, en markmið skólans er að aðstoða samstarfslönd við að móta og hrinda í framkvæmd stefnu sinni um þróun á sjálfbærri nýtingu auðlinda sjávar og vatna. Að þessu sinni útskrifast 22  nemar frá 16 löndum úr sex mánaða þjálfunarnámi. Nemarnir koma frá tíu Afríkulöndum (14), þremur eyríkjum Karíbahafs (3) og  þremur löndum í Asíu (5). Af þeim sem útskrifast í dag eru 10 konur, en að meðaltali er þátttaka kvenna í sex mánaða náminu á Íslandi  tæp 40%.

Sjávarútvegsskólinn býður upp á sex sérsvið og voru þrjú þeirra kennd í ár; gæðastjórnun í vinnslu og meðhöndlun fisks, veiðafærafræði og veiðitækni, og veiðistjórnun og þróun sjávarútvegs. Helmingur námsins er einstaklingsverkefni sem unnið er í nánu samstarfi með íslenskum sérfræðingum. Rannsóknarverkefnin spanna vítt svið, en öll tengjast þau með beinum hætti þeim viðfangsefnum sem nemarnir sinna í störfum sínum heima fyrir. Mörg lokaverkefnanna nýtast einnig beint við stefnumótun sjávarútvegs í heimalöndum þeirra.

 

Sjávarútvegsskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna hefur vaxið og aukið starfsemi sína í samstarfslöndum skólans á undanförnum áratug. Styttri námskeið hafa verið þróuð og haldin í samstarfi við þarlenda sérfræðinga, fyrrum nema og samstarfsstofnanir. Sjávarútvegsskólinn styður einnig við þátttöku fyrrum nema í alþjóðlegum ráðstefnum  á sviði sjávarútvegs. Því til viðbótar styrkir Sjávarútvegsskólinn fyrrum nema skólans til framhaldsnáms hér á landi í greinum tengdum sjávarútvegi.  Alls hafa 18 nemar lokið framhaldsnámi við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri, þar af hafa ellefu lokið doktorsnámi. Með þeim sem útskrifast í dag hafa alls 347 sérfræðingar frá um 50 löndum lokið sex mánaða náminu á Íslandi og og rúmlega 1200 manns tekið þátt í styttri námskeiðum í samstarfslöndunum. Jafnframt því að styrkja sérfræðiþekkingu og færni í samstarfslöndum og sjávarútvegsstofnunum, leggur skólinn ríkar áherslu á að afla og þróa þekkingu sem nýtist við stefnumótun í sjávarútvegsmálum.

Sjávarútvegsskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna er fjármagnaður af utanríkisráðuneytinu sem hluti af þróunarsamvinnu Íslendinga. Hann er rekinn af Hafrannsóknastofnun, í nánu samstarfi við Matís, Háskóla Íslands, Háskólann á Akureyri og Háskólann á Hólum, en auk þeirra koma fjöldi annarra stofnana og fyrirtækja að starfseminni með einum eða öðrum hætti. Velgengni Sjávarútvegsskólans í gegnum árin er ekki síst vegna góðrar samvinnu við fjölda stofnana á Íslandi og fyrirtækja í sjávarútvegi, og hefur sú samvinna í seinni tíð opnað í auknu mæli tækifæri íslenskra fyrirtækja og stofnana í samstarfslöndunum Sjávarútvegsskólans. Mikilvægur þáttur í náminu á Íslandi  felst í heimsóknum til fjölda fyrirtækja, stofnana og samtaka í sjávarútvegi. Stjórn og starfsfólk Sjávarútvegsskólans færir öllum þessum aðilum þakkir fyrir ómetanlegan stuðning í gegnum árin og vonast til að sem flestir sjái sér fært að vera viðstaddir útskriftina. .

 

Fastir starfsmenn við Sjávarútvegsskólann eru fjórir, og hefur Dr. Tumi Tómasson verið forstöðumaður frá upphafi.

 

Útskriftin fer fram í fundarsal á jarðhæð í Sjávarútvegshúsinu, Skúlagötu 4 og hefst kl 15:00.  Sjálf útskriftin mun taka um 60 mínútur og eftir það er hópmyndataka. Boðið er upp á léttar veitingar að athöfninni lokinni.

 

 

 

Deila: