Ákveða smíði nýs hafrannsóknaskips

Deila:

Á sérstökum hátíðarfundi Alþingis sem haldinn verður á Þingvöllum 18. júlí nk., mun Alþingi samþykkja þingsályktunartillögu um verkefni í tilefni af 100 ára fullveldisafmælis Íslands. Annað þeirra er smíði nýs rannsóknaskips fyrir Hafrannsóknastofnun.

Formenn allra stjórnmálalokka sem sæti eiga á Alþingi er flutningsmenn tillögunnar. Með tillögunni er lagt til að hafin verði smíði hafrannsóknaskips með sérstöku viðbótarframlagi af fjárlögum næstu þrjú ár, 2019–2021, sem skiptist þannig að 300 millj. kr. verði varið til hönnunar og undirbúnings á árinu 2019 og 1.600 millj. kr. hvort ár 2020 og 2021 til smíði skipsins. Í greinargerð með tillögunni segir svo:

Ísland til fyrirmyndar

„Við Ísland mætast kaldir og hlýir hafstraumar sem skapa skilyrði fyrir mikla uppblöndun næringarefna og frumframleiðni og þar með auðugt lífríki. Þess vegna búa Íslendingar við ríkuleg fiskimið. Nýting sjávarfangs lagði grunn að efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar og þar með fullveldinu. Það er stefna stjórnvalda að nýting lifandi auðlinda sjávar sé byggð á bestu fáanlegu þekkingu og ráðgjöf hverju sinni. Það hefur reynst þjóðinni farsælt. Allir helstu fiskistofnar eru í ágætu ástandi. Er Ísland hér í fararbroddi og er litið til landsins sem fyrirmyndar á þessu sviði. Þessi staða auk ábyrgrar nýtingar og meðferðar á aflanum er hornsteinn íslensks sjávarútvegs. Mikilvægt framlag Íslendinga til þróunarstarfa er að miðla þessari þekkingu m.a. með starfrækslu Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna.

 Miklar áskoranir

Þegar hafa orðið miklar breytingar á umhverfi sjávar. Loftslag er að hlýna og sjávarstraumar að breytast. Hafið hefur hlýnað og vistkerfi hafsins eru að breytast. Í hafinu í kringum Ísland og norðan við landið eru þessar breytingar miklar og hraðar. Þegar má sjá breytingar á vistkerfum hafsins í kringum Ísland. Norðlægar tegundir hörfa norðar en suðlægar tegundir sækja á. Dæmi um þessar breytingar er að loðna, sem er norðlæg tegund, hefur fært sig norðar, en auk þess að vera góður veiðistofn er hún mjög mikilvæg sem fæða margra annarra tegunda eins og þorsks. Annað dæmi er makríll sem var fyrir stuttu sjaldgæf tegund hér við land. Miklar áskoranir eru fólgnar í vöktun umhverfisþátta vistkerfa og breytinga í afkomu einstakra stofna. Þá þarf að fylgjast mjög vel með kolefnisbúskap og súrnun sjávar. Aukning plasts í hafi og annar mengunarvandi kallar einnig á auknar rannsóknir, auk þess sem þörf er á auknum örverurannsóknum. Kortlagning hafsbotnsins og efstu jarðlaga hans í lögsögu Íslands er hafin. Þetta er mjög umfangsmikið verk og kallar á mikið úthald öflugra skipa. Áformað er að verkinu ljúki innan tíu ára. Samhliða þeirri kortlagningu eru búsvæði botndýra og einstakar náttúrumyndanir kortlagðar. Slíkar rannsóknir eru forsenda þess að skilja betur vistkerfið í hafinu, meta verndargildi einstakra svæða, efla verndun og stýra nýtingu á markvissari hátt. Nýtt og vel búið hafrannsóknaskip mun styrkja þessar rannsóknaráherslur til muna.

Nauðsynlegt að nýtingin sé sjálfbær

Meginforsenda þess að Íslendingar geti tekist á við þær breytingar sem eiga sér nú stað á umhverfi hafsins og vistkerfi þess eru viðamiklar haf- og fiskirannsóknir, þ.m.t. reglulegar stofnmælingar á helstu nytjastofnum. Það er nauðsynlegt til að nýtingin sé sjálfbær og hún byggð á bestu fáanlegu þekkingu. Íslendingar þurfa að ráða yfir góðum og vel búnum rannsóknaskipum sem geta sinnt haf- og umhverfisrannsóknum, eru vel búin til bergmálsmælinga á uppsjávarstofnum, útbúin veiðarfærum til rannsókna á stofnum í upp-, mið- og botnsjó auk þess að geta rannsakað umhverfi með myndavélum og fjölgeislamæli. Þá eru rannsóknaskipin mikilvægur vettvangur kennslu og rannsókna fyrir háskólanema og til uppfræðslu á öðrum skólastigum.

Tæplega fimmtugt skip

Hafrannsóknastofnun á og rekur tvö rannsóknaskip. Þar að auki hafa verið leigð fiskiskip til ákveðinna verkefna. Stofnmæling botnfiska vor og haust eru stærstu verkefni stofnunarinnar þar sem leiguskip eru notuð. Sífellt erfiðara er að fá skip til þeirra verkefna vegna þess að skipum í flotanum hefur fækkað og ný skip eru í fullri notkun við atvinnuveiðar. Því þarf að treysta nánast alfarið á rannsóknaskip. Þá hefur breytt útbreiðsla uppsjávarfiska og miklar breytingar á stofnstærð þeirra kallað á auknar mælingar rannsóknaskipanna. Annað skipa stofnunarinnar, Árni Friðriksson, er smíðað árið 2000 en hitt árið 1970. Eldra skipið, Bjarni Sæmundsson, er því að verða 50 ára gamalt og löngu búið að gegna sínu hlutverki. Skipið stenst ekki lengur þær kröfur sem gerðar eru til rannsóknaskipa um aðbúnað og tæki og er auk þess þungt í rekstri.
Öflugar hafrannsóknir og vöktun á umhverfi sjávar eru forsenda sjálfbærrar nýtingar sjávarauðlindanna sem auka þekkingu á umhverfinu og þeim breytingum sem þar eru að verða. Með þingsályktunartillögu þessari er því lagt til að þegar á næsta ári verði hafinn undirbúningur að smíði nýs hafrannsóknaskips og það verði smíðað á árunum 2020 og 2021. Með því er horft til þess að Ísland geti áfram verið í forustu í góðri umgengni við náttúruna og í haf- og fiskirannsóknum.“

Deila: