Marel undirritar samning um kaup á 50% hlut í Curio

Deila:

Marel hefur skrifað undir samning um kaup á 50% hlut í Curio, sem er íslenskur framleiðandi fiskvinnsluvéla. Búist er við því að kaupin gangi formlega í gegn síðar á árinu að uppfylltum hefðbundnum skilyrðum.

Heildarlausnir í fiskvinnslu

Með vöruframboði Curio í flökun, hausun og roðflettingu getur Marel nú boðið viðskiptavinum heildarlausnir fyrir hvítfiskvinnslu. Kaupin styrkja stefnu Marel um að vera leiðandi á heimsvísu í hátækni heildarlausnum fyrir kjúklinga- kjöt- og fiskvinnslu.

Farsælt samstarf

Marel og Curio eiga farsælt samstarf að baki við hönnun og framleiðslu heildarlausna fyrir viðskiptavini í fiskvinnslu víðsvegar um heim þar sem Innova vinnsluhugbúnaður Marel heldur utan um og tryggir samfellt flæði. Í samstarfi við Marel mun Curio koma til með að nýta alþjóðlegt sölu- og þjónustunet Marel til þess að sinna viðskiptavinum enn betur.

Frá undirritun samningsins. Fremri röð f.v. Sólveig Jóhannesdóttir, Elliði Hreinsson og Árni Sigurðsson
Aftari röð f.v. Þórarinn V. Þórarinsson, Hulda Snorradóttir, Árni Oddur Þórðarson, Sigurður Ólason og Linda Jónsdóttir

Kaupréttur á eftirstandandi 50% hlut

Kaupin eru gerð í tveimur áföngum, 40% hlutur verður afhentur þegar skilyrði kaupsamnings hafa verið uppfyllt og 10% til viðbótar þann 1. janúar 2021. Marel eignast jafnframt kauprétt á eftirstandandi 50% hlut eftir fjögur ár. Elliði Hreinsson, stofnandi og framkvæmdastjóri Curio, mun áfram leiða fyrirtækið. Búist er við að rekstrarhagnaður Curio hafi jákvæð áhrif á EBIT framlegð fiskiðnaðar Marel við samstæðuuppgjör eftir þann 1. janúar 2021.

„Við erum mjög spennt að taka höndum saman með Curio, framleiðanda hátækni fiskvinnsluvéla fyrir frumvinnslu hvítfisks. Kaupin færa okkur nær markmiðum okkar að bjóða upp á heildarlausnir fyrir fiskvinnslu á heimsvísu. Síðustu ár hafa Marel og Curio unnið saman að heildarlausnum fyrir mörg af framsæknustu fiskvinnslufyrirtækjum heims með góðum árangri. Með því að bjóða upp á heildarlausnir, framleiðsluhugbúnað og áreiðanlega viðhaldsþjónustu hjálpum við viðskiptavinum okkar að sjálfvirknivæða vinnslur sínar og stuðlum að samfelldu flæði milli vinnslustiga sem tryggir verðmætari og öruggari vörur fyrir viðskiptavini á heimsvísu,” segir Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel:

„Ég tel þetta frábærar fréttir fyrir viðskiptavini fyrirtækjanna þar sem samlegðaráhrif munu klárlega auka vöruúrval og gefa vöruþróun byr undir báða vængi. Ég hlakka mikið til samstarfsins og hef miklar væntingar til sameiginlegrar vöruþróunar,” segir Elliði Hreinsson, framkvæmdastjóri Curio.

Frá vinstri: Mímir Hafliðason, Narfi Þorsteinn Snorrason, Linda Jónsdóttir, Gunnar Tjörvi Sigurðsson, Róbert Unnþórsson, Árni Sigurðsson, Sigurður Ólason, Árni Oddur Þórðarson, Axel Pétur Ásgeirsson, Elliði Hreinsson, Sólveig Jóhannesdóttir og Hulda Snorradóttir

Um Curio

Curio var stofnað árið 2008 og sérhæfir sig í nýstárlegum lausnum fyrir hausun, flökun og roðflettingu hvítfisks. Aðalmarkaður Curio er Evrópa, með áherslu á Norðurlönd og Bretland. Árlegar tekjur eru um 10 milljónir evra.

Um Marel

Marel er í fararbroddi á heimsvísu í þróun og framleiðslu tækja, heildarlausna, hugbúnaðar og þjónustu fyrir matvælavinnslu á kjúklingi, kjöti og fiski. Hjá félaginu starfa yfir 6000 manns í yfir 30 löndum, þar af um 720 á Íslandi.

Marel velti 1,2 milljarði evra árið 2018 en árlega fjárfestir Marel um 6% af veltu í nýsköpun og vöruþróun sem styður við aukna hagkvæmni, öryggi og sjálfbærni í matvælavinnslu. Félagið var skráð í Kauphöll Íslands árið 1992, en í júní 2019 fór fram tvíhliða skráning á 15% hlutabréfa í félaginu í Euronext kauphöllinni í Amsterdam.

 

Deila: