Öflugur dráttarbátur til Akureyrar
Í sumar á Hafnarsamlag Norðurlands von á nýjum og öflugum dráttarbát. Smíði á bátnum stendur yfir í skipasmíðastöð á Norður-Spáni og gera áætlanir ráð fyrir að hann komi til heimahafnar á Akureyri í lok maí eða byrjun júní. Báturinn verður með 40 tonna togkraft og því fjórfalt öflugri en sá sem fyrir er. Hann verður 22 metra langur og 9 metra breiður. Báturinn er búinn Azimuth skrúfubúnaði og verður öflugasti dráttarbátur landsins. Báturinn verður sá fyrsti sinnar tegundar hér á landi og mun gjörbreyta allri dráttarbátaþjónustu, m.a. þegar kemur að þjónustu við sístækkandi skip sem sigla inn Eyjafjörð. Að auki verður hann öflugt öryggistæki fyrir allt Norðurland.
„Svörum kalli tímans“ „Með því að festa kaup á svo öflugum dráttarbát svörum við kalli breyttra tíma. Skipin stækka og núverandi dráttarbátar eru alls ekki nógu öflugir. Með tilkomu nýja bátsins eykst öryggið til muna og við erum því full tilhlökkunar að taka hann í notkun næsta sumar,“ segir Pétur Ólafsson, hafnarstjóri á Akureyri.