Vill auka samvinnu með sameiningu hafna

Deila:

Gott jafnvægi hefur einkennt rekstur Hafnasamlags Norðurlands hin síðari ár. Höfuðstöðvarnar eru á Akureyri þar sem bryggjurnar eru flestar og umsvifin mest, m.a. er þar að finna stóra fiski- og flutningahöfn. Auk þess eru innan samlagsins hafnir í Grímsey, Hrísey, á Hjalteyri, Svalbarðseyri og Grenivík.

Pétur Ólafsson hafnarstjóri AkureyriPétur Ólafsson hafnarstjóri segir nauðsynlegt að huga að aukinni samvinnu eða sameiningu hafna. Æ ríkari kröfur séu gerðar til þeirra, m.a. varðandi öryggismál, mengunar- og sorpmál auk þess sem skipulagsmál verði æ fyrirferðarmeiri. Stór liður í vinnu starfsmanna snúist um að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til starfseminnar „og því ættum við hér á norðanverðu landinu að horfa til þess hvort ekki sé tímabært að auka samvinnu okkar á milli eða jafnvel sameinast undir einn hatt,“ segir hann. Hafnasamlag Norðurlands hefur undanfarin misseri átt gott samstarf við m.a. hafnir Dalvíkurbyggðar og Húsavíkurhöfn. Aðstoð dráttarbáts hefur m.a. verið nauðsynleg við erfið veðurskilyrði þegar flutningaskip hafa komið til Húsavíkur vegna uppbyggingarinnar á Bakka. „Þessi samvinna hefur gengið afar vel og ekki ólíklegt að framhald verði á,“ segir Pétur.

Landaður afli um 20 þúsund tonn árlega

Stöðugleiki hefur einkennt útgerð frá Akureyri síðustu ár og eru landanir fiskiskipa ÚA og Samherja reglulegar. „Eftir að útgerð á Akureyri komst á ný í hendur heimamanna hefur verið líflegt á hafnarsvæðinu og afla landað reglulega. Það er gleðilegt og skiptir okkur verulegu máli,“ segir Pétur. „Það er mikilvægt fyrir okkur sem hafnirnar rekum að búa við stöðugleika í þessum efnum.“

Á Akureyri hefur um 20 þúsund tonnum verið landað árlega síðastliðin ár. Hann segir að ÚA og Samherji hafi síðustu misseri lagt í mikla uppbyggingu, bæði á landi og í endurnýjun flotans og það styrki vissulega rekstraröryggi hafnarinnar.

Strandflutningar aukast

Strandsiglingar hófust á ný árið 2014 eftir nokkurt hlé og segir Pétur að á þeim tíma sem liðinn er hafi flutningar til og frá höfuðstað Norðurlands aukist mikið. Um Akureyrarhöfn fóru um 210 þúsund tonn árið 2017, þar af voru um 70 þúsund tonn sem falla undir svokallaða strandflutninga. „Það hefur verið þó nokkur gangur í þessu og við merkjum aukningu. Hér á svæðinu hafa verið töluverð umsvif síðustu misseri, m.a. við gerð Vaðlaheiðarganga og sem dæmi má nefna að flutningur á sementi hefur verið mikill,“ segir hann. Strandsiglingarnar segir Pétur að hafi styrkt samkeppnishæfni norðlenskra fyrirtækja til muna og lækkað flutningskostnað umtalsvert.

Biðlar til olíufélaganna

Hann nefnir að það sæti furðu að olíufélögin nýti sér ekki þann kost að koma sér upp tönkum fyrir flugvélaeldsneyti norðan heiða, sem flutt væri beint til Akureyrar með skipum, sérstaklega nú þegar góðar líkur séu á að reglulegt millilandaflug sé að hefjast um Akureyrarflugvöll. „Ég biðla til olíufyrirtækjanna að skoða þann möguleika alvarlega, að koma upp aðstöðu í Krossanesi fyrir innflutning á flugvélaeldsneyti. Það styrkir flugið verulega og er einn þáttur þess að fá flugfélög til að koma hér við. Það er í raun fáránlegt að aka með eldsneyti um 400 kílómetra leið frá höfuðborgarsvæðinu og hingað norður.“

Tekjur af skemmtiferðaskipum 245 milljónir í fyrra

Komur skemmtiferðaskipa verða sífellt fleiri yfir sumarmánuðina og tímabilið teygist til beggja átta. Skipin koma fyrr að vorinu og eru á ferðinni lengra fram á haustið. Pétur segir viðkomur skemmtiferðaskipa vega þungt í rekstri Hafnasamlags Norðurlands og tekjur aukist í takt við auknar komur. Á liðnu ári námu tekjur HN af skemmtiferðaskipum 245 milljónum króna, sem er um 37% af heildartekjum samlagsins. Fyrir um 20 árum voru 3% heildartekna hafnarinnar vegna skemmtiferðaskipa.

Í fyrrasumar höfðu 124 skip viðkomu á Akureyri og alls 31 skip kom til Grímseyjar, eða 155 í allt. Með þeim skipum sem lögðu leið sína til Akureyrar voru alls

115.565 farþegar en Pétur segir skipin ævinlega vel bókuð, með á bilinu 94-95% bókunarhlutfall. „Það er greinilegt að þessar ferðir hingað á norðurslóðir eru mjög vinsælar, skipin eru nánast full. Vöxturinn hefur verið hraður, en sem dæmi til samanburðar má nefna að árið 2013 komu 63 skemmtiferðaskip til Akureyrar og þótti bara dágott á þeim tíma. Á fimm ára tímabili eru þau orðin tvöfalt fleiri,“ segir hann.

Ekkert lát á vinsældunum Íslands

Útlitið í sumar er gott og gera má ráð fyrir að fjöldinn verði örlítið meiri en árið 2017 og hið sama má segja um sumarið 2019. Þegar eru farnar að berast bókanir fyrir sumarið 2020. Hafnir, bæði á Akureyri og í Reykjavík, fá mjög góða einkunn hjá stóru skipafélögunum. „Það eru bestu meðmælin, enda hefur verið kappkostað að bjóða upp á góða aðstöðu og þjónustu.“

Pétur segir að komur skemmtiferðaskipa til hafna á Norðurlandi skilji eftir sig um 3 milljarða í samfélaginu fyrir norðan. Beinar og óbeinar tekjur yfir landið allt nemi 7 til 9 milljörðum króna. Farþegar með skemmtiferðaskipum eru þó einungis í heild um 6% af heildarfjölda allra ferðamanna sem til Íslands koma. Um 100 heilsársstörf verða til á Norðurlandi vegna skemmtiferðaskipanna. Svonefndar hringsiglingar minni skipa með um 200 farþega hafa átt auknum vinsældum að fagna hin síðari ár. Skipin sigla nokkra hringi umhverfis landið og staldra við á 7 til 9 höfnum. Nýir hópar koma til landsins með flugi og skipti fara fram í Reykjavík eða Akureyri. Skipakomur til minni hafna hafa í kjölfarið aukist, m.a. til Grímseyjar og nefnir Pétur að á komandi sumri bætist Hrísey í hópinn, en áætlað er að tvö skip komi þar við. „Þessar skipakomur til minni hafna hafa bætt rekstur hafnasjóða verulega og nýting þeirra mannvirkja sem til staðar eru hefur aukist. Eini kostnaðurinn felst einfaldlega í fegrun hafnasvæðanna,“ segir Pétur. Þessar hringsiglingar hafa í för með sér að skip hafa stoppað m.a. á Siglufirði og Húsavík og er nú verið að skoða möguleika á að bæta fleiri stöðum við, t.d. Sauðárkrók og Raufarhöfn. Tvær síðasttöldu hafnirnar hafa nýlega gengið til liðs við Cruise Iceland, regnhlífarsamtök hafna og þjónustuaðila sem vinna að heimsóknum skemmtiferðaskipa.

Hvalaskoðun góð viðbót

Hafnsækinni ferðaþjónustu á svæði HN hefur vaxið fiskur um hrygg, en þar er einkum átt við aukið framboð á hvalaskoðunarferðum. Slíkar ferðir bjóðast m.a. frá Akureyri og Hjalteyri og hefur uppgangur á því sviði verið greinilegur undanfarin fjögur ár. Um 40 þúsund farþegar fóru í hvalaskoðunarferðir frá þessum stöðum á síðastliðnu ári. Vel hefur tekist til og farþegar eru ánægðir. Nánast sést stórhveli í hverri ferð og lítið sem ekkert er um að farþegar verði sjóveikir. „Þetta er afskaplega góð viðbót við þá fjölbreyttu starfsemi sem hér er í boði,“ segir Pétur.

Aukin hvalaskoðun kallar á uppbyggingu á Torfunefsbryggju á Akureyri þar sem bækistöðvar hvalaskoðunarfyrirtækjanna eru. Gamla bryggjan er svo gott sem ónýt og brýn þörf á að byggja nýja. Þegar er búið að teikna nýja bryggju á Torfunefi ásamt tilheyrandi aðstöðu og væntir Pétur þess að framkvæmdir hefjist næsta haust. Þær standi yfir næstu tvö til þrjú ár og verði svæðið hið glæsilegasta að þeim loknum.

Aðrar framkvæmdir sem nauðsynlegt sé að ráðast í til framtíðar litið segir Pétur vera lengingu Tangabryggju til suðurs, en þar er mikil umferð bæði skemmtiferða- og fragtskipa. Sú stækkun er komin inn í skipulag og má gera ráð fyrir að hafist verði handa á næstu misserum. Horft er til þess að framtíðarþjónustuhöfn fyrir norðursvæðið verði á Dysnesi norðan Akureyrar, en þar hefur verið skiplagt iðnaðarsvæði á allt að 100 hektara svæði. „Það tekur allt sinn tíma og einhver ár eru í að framkvæmdir hefjist á því svæði. Markaðssetning svæðisins er afar erfið þar sem mikill skortur er á rafmagni á Eyjafjarðarsvæðinu,“ segir Pétur.

Viðtalið birtist fyrst í blaðinu Sóknarfæri sem Athygli gefur út. Lesa má blaðið á eftirfarandi slóð:

https://issuu.com/athygliehf/docs/soknarfaeri_sjavarutv_1tbl_feb_2018?e=2305372/58404210

 

Deila: