Allir réttu megin á Reykjaneshrygg
Sól skein í heiði á Reykjavíkurflugvelli og varla bærðist þar hár á höfði á ellefta tímanum á fimmtudagsmorguninn þegar áhöfn flugvélarinnar TF-SIF gerði allt klárt fyrir eftirlitsflug dagsins. Förinni var heitið á Reykjaneshrygg þar sem meðal annars átti að grennslast fyrir um nokkur erlend fiskiskip sem þar voru að veiðum. Frá þessu er sagt á heimasíðu Landhelgisgæslunnar.
Þegar vélin var komin í flughæð tóku skýin að hrannast upp fyrir neðan svo ekki sá lengur til sjávar. Laust fyrir klukkan eitt var komið að fyrsta verkefninu, að varpa öldureksduflinu í sjóinn. Það er hluti af mælibúnaði sem notaður er við rannsóknarverkefni sem bandaríska Scripps-haffræðistofnunin stendur nú fyrir í hafinu við Ísland í samstarfi við Landhelgisgæsluna, Hafrannsóknastofnun og Háskóla Íslands. Sagt var frá verkefninu á heimasíðu LHG fyrir rúmum tveimur mánuðum.
Þegar TF-SIF var komin rúmar 150 sjómílur suðvestur af Reykjanestá var duflið sett í sérstaka rennu í flugvélinni. Áður en það var látið gossa úr rennunni gekk áhöfnin samt úr skugga um að engin skip eða bátar væru á siglingu fyrir neðan.
Áfram var svo flogið allt að endimörkum fiskveiðilögsögunnar þar sem ellefu rússnesk skip voru á úthafskarfaveiðum. Var flogið framhjá þeim til að bera saman nöfn þeirra við upplýsingar úr ferilvöktunarkerfum stjórnstöðvar og teknar af þeim myndir.
Skemmst er frá því að segja að allar upplýsingar stemmdu og öll skipin voru réttu megin við lögsögumörkin, þ.e.a.s. handan þeirra. Haft var samband við eitt þeirra og upplýstu skipverjar að veiðin væri með dræmara móti en hefði verið góð deginum áður.
Á bakaleiðinni var fylgst með skipaumferð á djúpslóð og grunnslóð suðvestur af landinu og þegar flogið var yfir Reykjanesskagann sást til þyrlunnar TF-SYN sem var við æfingar við Höskuldarvelli.
Flugvélin lenti svo aftur á Reykjavíkurflugvelli á slaginu þrjú eftir þessa vel heppnuðu eftirlitsferð.