Hoyvíkursamningurinn heldur gildi sínu

Deila:

Hoyvíkursamningurinn, fríverslunarsamningur Íslands og Færeyja, heldur gildi sínu. Færeyska þingið hefur samþykkt að draga uppsögn samningsins til baka en hún hefði annars tekið gildi um áramótin. Samningurinn var gerður árið 2005 og tekur meðal annars til vöru- og þjónustuviðskipta, búseturéttar, fullrar fríverslunar með landbúnaðarvörur og fjármagnsflutninga og fjárfestinga. Þetta er víðtækasti fríverslunarsamningur Íslendinga við nokkuð ríki samkvæmt frétt ruv.is

Fyrir rúmu ári ákváðu Færeyingar að segja samningnum upp eftir að ákveðið var að banna erlent eignarhald á færeyskum sjávarútvegi. Færeysk stjórnvöld töldu einnig að Ísland væri að fá mun meira út úr samningnum en Færeyingar.

Ný ríkisstjórn sem tók við völdum í Færeyjum í haust vildi hins vegar halda samningum. Lögum um eignarhald í sjávarútvegi var breytt á þann hátt að ekki þyrfti að breyta núverandi eignarhaldi. Tillaga um að draga uppsögn sáttmálans til baka var svo samþykkt á þinginu í gærkvöld með 16 atkvæðum gegn 13.

Jenis av Rana utanríkisráðherra Færeyinga sagði við færeyska Kringvarpið í gærkvöld að nokkrar breytingar hefðu náðst fram á samningnum. Meðal annars er ákvæði um að landbúnaðarvörur sem framleiddar eru í Færeyjum verða seldar til Íslands sem færeyskar vörur. Þetta á líka við um heilsuvörur, eins og vítamín.

Poul Michelsen fyrrverandi utanríkisráðherra, sem nú er í stjórnarandstöðu, vildi að uppsögnin hefði tekið gildi, þar sem Færeyingar hefði ekki fengið að út úr honum sem að var stefnt. Hann telur að það hefði verið skynsamlegt að segja samningnum upp og fara svo með það útspil í viðræður við Íslendinga um viðskiptasamband landanna. Það hefði tryggt Færeyingum sterkari samningsstöðu.

 

Deila: