Hættir afhendingu á bóluefnum til seiðaeldisstöðva
Vegna erindis sem Matvælastofnun barst frá Umboðsmanni Alþingis s.l. föstudag og vegna umræðu um hæfi dýralæknis fisksjúkdóma, í tengslum við eftirlit með fiskeldi, hefur starfsmaðurinn ákveðið að hætta afhendingu á bóluefnum til seiðaeldisstöðva. Þessi ákvörðun hans er tekin til að tryggja að ekki sé hægt að efast um hæfi og heilindi dýralæknisins í störfum fyrir Matvælastofnun.
Núverandi kerfi við eftirlit með fisksjúkdómum var komið á af yfirdýralækni fyrir 26 árum og var markmiðið að fá betri yfirsýn yfir fisksjúkdóma og notkun sýklalyfja, sem var umtalsverð á þeim tíma. Í framhaldinu var lögð áhersla á þróun bóluefna og hafa sjúkdómagreiningar verið unnar í samvinnu dýralækna Matvælastofnunar og fisksjúkdómadeildar Tilraunastöðvar HÍ að Keldum. Árangurinn af þessu starfi er að nú hafa sýklalyf ekki verið notuð í fiskeldi í 6 ár og ekki það sem af er þessari öld í sjókvíaeldi. Staða fisksjúkdóma hér á landi er því einstök og er Ísland í dag eina landið sem getur selt hrogn til helstu ríkja sem eru með umfangsmikið fiskeldi.
Umboðsmaður Alþingis hefur fjallað í tilteknu máli um hæfi dýralæknis fisksjúkdóma hjá Matvælastofnun með hliðsjón af afhendingu hans á bóluefnum til seiðaeldisstöðva. Niðurstaða Umboðsmanns í erindi sem barst Matvælastofnun 31. mars 2017 er að hann hafi ekki forsendur til að fullyrða að fjárhagslegir hagsmunir séu svo verulegir, í því máli sem var til skoðunar, að farið hafi í bága við hæfisreglur stjórnsýsluréttar. Engu að síður hefur Umboðsmaður óskað eftir áliti atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins á því hvort ástæða sé til að taka til frekari skoðunar störf dýralækna fisksjúkdóma, annars vegar fyrir stjórnvöld og hins vegar við afhendingu bóluefna, með hliðsjón af hæfisskilyrðum.
Yfirdýralæknir og dýralæknir fisksjúkdóma munu undirbúa breytt fyrirkomulag um afhendingu lyfja og koma með tillögur um hvaða leiðir eru færar til að tryggja áfram góða sjúkdómastöðu hér á landi og fullnægjandi skráningar vegna notkunar lyfja. Matvælastofnun hefur upplýst ráðuneytið um þessa niðurstöðu og er það sammála því að rétt sé að endurskoða núverandi fyrirkomulag. Jafnframt hefur stofnunin óskað eftir að ráðuneytið fari yfir lög og reglur um dýralækna og varnir gegn fisksjúkdómum með það að markmiði að tryggt verði að hlutverk Matvælastofnunar og starfsmanna hennar verði skýrt og að ekki komi til þess að efast sé um hæfisskilyrði.