Farsælt fiskeldisár

Deila:

Árið 2016 reyndist fremur farsælt fiskeldisár á marga vísu. Eitt af því sem stendur upp úr er að aldrei áður hefur framleiðsla til slátrunar og vinnslu aukist jafn mikið á milli einstakra ára, eða um heil 82% og mun það met eflaust standa um ókomin ár. Um þetta er fjallað í ársskýrslu dýralæknis fisksjúkdóma og sagt frá á heimasíðu Landssambands fiskeldisstöðva.

Uppbygging grunnstoða hélt áfram
Uppbygging mikilvægra grunnstoða héldu áfram og þau fyrirtæki sem höfðu áform um nýframkvæmdir héldu sínu striki. Það má þó ljóst vera að miðað við fjölda og stærð seiðaeldisstöðva mun framleiðsluaukning í eldi laxfiska verða á fremur rólegum nótum allra næstu ár.

Nær sami fjöldi fyrirtækja
Nánast engin breyting hefur orðið á fjölda fyrirtækja og aðeins ein ný sjókvíaeldisstöð mun bætast í flóruna árið 2017.

Óvænt andstaða
Á liðnu ári magnaðist enn frekar andúð samtaka stangveiðimanna sem ekki hugnast uppbygging laxeldis í sjó. Kerfisbundið hafa öll skref til aukins laxeldis verið kærð og tafin eftir fremsta megni. Eins og áður hefur komið fram á þessum vettvangi er þessi barátta óvægin og í raun nokkuð óvænt, ekki síst í ljósi stjórnvaldsaðgerða frá 2004 þar sem fiskeldi framtíðar var beint inn á ákveðin strandsvæði. Á þeim slóðum átti sjókvíaeldi að fá að þroskast og dafna í takt við tilteknar leikreglur og án þess að hafa óafturkræf áhrif á viðgang og vöxt villtra laxfiska.

Sáttinni var fagnað á sinum tíma
Veiðifélög og samtök eldismanna fögnuðu þessari sátt á sínum tíma sem þótti heillaspor fyrir báða aðila. Til að hnykkja enn betur á ströngu aðhaldi var löggjöf uppfærð vorið 2014 í þeirri viðleitni m.a. að herða enn betur á reglum um styrkleika mannvirkja í sjó og þurfa ný rekstrarleyfi að hlíta þessum reglum í einu og öllu.

 

Sjá skýrsluna í heild sinni:

file:///C:/Users/g/AppData/Local/Microsoft/Windows/INetCache/IE/01ACC8IP/Arsskyrsladyralaeknisfisksjukdoma2016.pdf

 

Deila: