Ný og mun stærri flutningaskip til Þorlákshafnar eftir tvö ár

Deila:

Smyril Line sem siglir reglubundið milli Þorlákshafnar, Færeyja og meginlands Evrópu samdi á dögunum um smíði á tveimur nýjum flutningaskipum sem koma til með að þjónusta á þessari flutningsleið. Skipin verða smíðuð í Kína og verða tekin í notkun árið 2026. Benjamín Ómar Þorvaldsson, hafnarstjóri Ölfuss, segir ákvörðun um smíði skipanna undirstrika þann árangur sem náðst hefur í uppbyggingu Þorlákshafnar í vöruflutingum og þá áherslu sem Smyril Line leggi á þessa þjónustu.

Risavaxin og umhverfisvæn flutningaskip

Nýju skipin tvö eru svokölluðRoRo skip, sérhönnuð til að flytja vöruflutningavagna og gámavagna. Þau verða 190 metrar að lengd og í þeim verða rúmlega 3,3 lengdarkílómetrar fyrir flutninga- og gámavagna. Skipin eru hönnuð með mikilli áherslu á umhverfisþáttinn og verða þau með búnaði til að tengjast landrafmagni auk þess að geta nýtt rafeldsneyti. Smyril Line hefur gefið út að nýju skipin komi til með að skila orkusparnaði miðað við núverandi flutningaskip sem nemi að lágmarki 60% minni koltvísýringi í losun á hvert flutt tonn.

Vöruflutningasiglingar sem eru komnar til að vera

„Þetta eru umtalsvert stærri flutningaskip en Smyril Line notar á flutningsleiðinni í dag og við komum til með að þurfa að laga okkur að þessum skipum á ýmsan hátt, bæði með breytingum á rampi þar sem skipin koma til með að leggjast að ogsömuleiðis þurfum við væntanlega að stækka dráttarbát hafnarinnar til að þjónusta þau. Þessu fylgir líka rafmagnstenging á bryggjunni en fyrst og fremst er þetta ánægjulegt fyrir okkur og staðfesting þess að þau markmið að byggja upp reglubunda vöruflutninga á siglingaleiðinni milli Þorlákshafnar og meginlands Evrópu hafa gengið eftir. Auk þeirra flutninga sem þegar eru í dag blasir við að sjóflutningarnir munu vaxa umtalsvert á næstu árum vegna uppbyggingar í laxeldi á landi hér í Ölfusi,“ segir Benjamín en í höfninni er þessa dagana mikill kraftur í framkvæmdum, m.a. verið að reka niður stálþil í nýrri bryggju sem hafnarstjórinn reiknar með að verði tekin í notkun í byrjun sumars. „Við erum þannig stöðugt að fylgja eftir auknum umsvifum og ákvörðun Smyril Line um stærri flutningaskip, bæði mun lengri og breiðari, kallar á enn frekari framkvæmdir á komandi árum,“ segir Benjamín.

Greinin birtist fyrst í Sóknarfæri.

Deila: