Fiskeldissjóður með 437 milljónir til úthlutunar í ár

Deila:

Fiskeldissjóður hefur auglýst eftir styrkumsóknum vegna ársins 2024 en þetta er þriðja úthlutunarár sjóðsins. Umsóknarfrestur rennur út þann 6. mars næstkomandi en til úthlutunar verða rúmar 437 milljónir króna sem er hæsta styrkfjárhæð sem sjóðurinn hefur haft til ráðstöfunar á einu ári frá því fyrst var úthlutað árið 2021. Fiskeldissjóður starfar á grundvelli laga um töku gjalds vegna fiskeldis í sjó og fiskeldissjóðs. Honum er ætlað að veita sveitarfélögum styrki til uppbyggingar innviða, þar sem fiskeldi í sjókvíum er stundað, og styrkja þar með samfélög og stoðir atvinnulífs á þeim svæðum. Við úthlutun styrkja er sérstaklega horft til verkefna sem snúa að eftirtöldum þáttum:

a) Styrkari samfélagsgerð (menntun, menning, íbúaþróun)
b) Uppbyggingu innviða (atvinnulíf, þjónusta)
c) Loftslagsmarkmiðum og umhverfisvernd (fráveita, orkuskipti, vatnsveita)
d) Tengingu við sjókvíaeldi (hafnir, aðstaða í landi)
e) Nýsköpun hverskyns, tengd ofangreindum þáttum

Árið 2021 úthlutaði Fiskeldissjóður í fyrsta sinn og þá til fimm verkefna í fjórum sveitarfélögum, samtals 105 milljónum króna. Það ár bárust umsóknir að fjárhæð samtals 239 milljónir króna.

Árið 2022 var í annað sinn úthlutað úr sjónum og fengu þá níu verkefni í sex sveitarfélögum úthlutað styrkjum samtals að fjárhæð 185,1 milljón króna. Í fyrra voru samþykkt styrktarverkefni orðin 12 í sjö sveitarfélögum og þá var fjárhæðin 247,7 milljónir króna. Heildarfjöldi umsókna var þá 24 að fjárhæð rúmar 758 milljónir króna sem er þrefalt hærri fjárhæð en sjóðurinn hafði burði til að úthluta. Sú breyting var gerð á úthlutunarreglum í fyrra að hámarksfjárhæð einstakra styrkja var felld niður en var áður 50 milljónir króna. Vesturbyggð var það  sveitarfélag sem fékk hæstu styrkina í fyrra, samtals að fjárhæð tæplega 70 milljónir króna til fjögurra verkefna, þ.e. til kaupa á slökkvibifreið, vegna viðbyggingar við leikskólann Araklett á Patreksfirði, til Þekkingarog þróunarsetursins Vatneyrarbúðar á Patreksfirði og til överuhreinsunar með geislatækni.

Greinin birtist fyrst í Sóknarfæri.

Deila: