Aukin aflaverðmæti á Austurlandi

Deila:

Aflaverðmæti dróst saman í öllum landshlutum í septembermánuði síðastliðnum nema á Austurlandi og á höfuðborgarsvæðinu. Fyrir austan jókst verðmæti landaðs afla um tæp 11% og um 4% á höfuðborgarsvæðinu, þrátt fyrir að samdráttur í aflaverðmæti á landsvísu væri 12,5%.

Samdrátt í aflaverðmæti má annars vegar rekja til tæplega 10% minni fiskafla í mánuðinum miðað við sama mánuð árið áður og hins vegar til lægra fiskverðs almennt. Mest varð aflaverðmætið á höfuðborgarsvæðinu, 2,4 milljarðar sem er aukning um 4%. Næstmest var verðmætið á Austurlandi, 2,3 milljarðar sem er 10,9% vöxtur. Þar á eftir kemur Norðurland eystra með 2,2 milljarða, sem er 20,9% samdráttur.

Suðurnesin koma í fjórða sæti með 1,6 milljarða, sem er 16,8% minna en í sama mánuði árið áður. Þar á eftir kemur Suðurland með verðmæti upp á 960 milljarða, sem er 15,1% samdráttur. Aflaverðmæti á Vesturlandi var 505 milljónir sem er aðeins 0,8% samdráttur. Á Vestfjörðum varð verðmæti aflans 379 milljónir og dróst saman 36,7%. Loks varð aflaverðmæti á Norðurlandi vestra 314 milljónir og þar varð samdrátturinn langmestur eða 57,6%.

Þá dróst verðmæti afla sem fluttur var utan óunninn í gámum saman um 31,6% og varð samtals 413 milljónir króna.

Deila: