Fiskeldisskýrsla til alþjóðlegra sérfræðinga

Deila:

Íslensk stjórnvöld ætla að senda skýrslu um stefnumótun í fiskeldi í alþjóðlega vísindalega rýni helstu sérfræðinga í greininni. Sjávarútvegsráðherra segist hafa mikinn skilning á óánægju Vestfirðinga. Þetta kemur fram í frétt á ruv.is, þar sem rætt er við Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Þrjú laxeldisfyrirtæki hafa unnið að undirbúningi laxeldis í Ísafjarðardjúpi undanfarin ár. Fyrirtækin voru komin mislangt í leyfisumsóknum og umhverfismati, en samtals höfðu þau eytt að minnsta kosti tugum milljóna króna í undirbúning. Eftir að skýrsla starfshóps sjávarútvegsráðherra um stefnumótun í fiskeldi var kynnt í ágúst bendir hins vegar allt til þess að ekkert verði af áformum um laxeldi í Ísafjarðardjúpi. Áhættumatið getur þó breyst.

Ef ekkert verður úr laxeldinu, munu stjórnvöld þá bjóða þessum fyrirtækjum bætur?

„Eigum við ekki aðeins að anda rólega?,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. „Það er alveg ljóst að það eru ákveðin lög og réttindi í gildi í landinu sem tengist stjórnsýslunni, jafnræði og svo framvegis. Við ætlum bara að byggja upp gott kerfi í kringum fiskeldið. Við ætlum að byggja upp greinina til framtíðar,“ segir hún.

Það hafa heyrst frekar háværar óánægjuraddir að vestan, þeir segja eitthvað á þá leið að þeir megi aldrei gera neitt, hefurðu skilning á þessu?

„Já ég hef mjög mikinn skilning á þessu. Ég skil sérstaklega norðanverða Vestfirðina, Djúpið. Þar eru menn að reyna að halda áfram við að byggja upp sitt samfélag og sína innviði. Það gerist meðal annars í gegnum uppbyggingu atvinnugreina. Þannig að ég skil Djúpmenn mjög vel, að fyrstu niðurstöður áhættumats hafi verið þessar. En ég bendi líka á, eins og Hafró hefur gert, að áhættumatið er lifandi plagg þótt sumir vilji sjá það dautt. Það er lifandi, það er breytilegt, það er í þróun. Og í byrjun október fer það í alþjóðlega vísindalega rýni helstu sérfræðinga á sviði fiskeldis og við skulum sjá hvað setur.“
Þannig að þessar tillögur geta breyst?

„Það liggur alveg ljóst fyrir. Viðmiðunarreglan sem ólíkir hagsmunaaðilar komu sér saman innan starfshópsins er sú að miða við áhættumatið. Áhættumatið getur breyst. Ef forsendur breytast, þá eðli málsins samkvæmt getur áhættumatið breyst líka,“ segir Þorgerður Katrín.

 

Deila: