Alvarlegt brot á samkeppnislögum?

Deila:

Samkeppniseftirlitið gerir fjórar alvarlegar athugasemdir við viðskiptahætti Guðmundar Kristjánssonar, aðaleiganda Brims og HB Granda, og segir að ef frummat stofnunarinnar sé á rökum reist sé um að ræða „alvarleg brot“ á samkeppnislögum samkvæmt frétt í Fréttablaðinu í dag.

Fram kemur í bréfi frá Samkeppniseftirlitinu, sem Markaðurinn hefur undir höndum, að sú staða að aðaleigandi Brims sé forstjóri HB Granda kunni að leiða til brota á samkeppnislögum. Guðmundur tók við sem forstjóri HB Granda í júní eftir kaup á kjölfestuhlut í fyrirtækinu vor. Stofnunin rifjar upp að í Fréttablaðinu hafi komið fram að hann hafi áhuga á að auka samstarf á milli útgerðanna tveggja og að einkum sé horft til sölu- og markaðsmála í þeim efnum.

Auk þess er sagt í bréfinu að sú staða að aðaleigandi Brims sitji í stjórn Vinnslustöðvarinnar, en hann átti þriðjungshlut í fyrirtækinu þar til í gær, kunni að leiða til samkeppnisbrota. Samkvæmt tilkynningu til Ríkisskattstjóra hefur Guðmundur ekki setið í stjórn Vinnslustöðvarinnar frá 10. apríl þegar blásið var til aðalfundar. Bréfið sem Markaðurinn hefur undir höndum er dagsett 6. júlí.

Samkeppniseftirlitið segir að það sé varhugavert í samkeppnislegu tilliti að sami aðili, sem eigi allt hlutafé í einu félagi, sé á sama tíma forstjóri félags á sama markaði og stjórnarmaður í því þriðja. Guðmundur vildi ekki tjá sig við Markaðinn þegar eftir því var leitað.

HB Grandi upplýsti hinn 7. júlí að útgerðinni hefði borist erindi frá Samkeppniseftirlitinu þar sem óskað væri eftir sjónarmiðum félagsins vegna skoðunar á því hvort myndast hefðu yfirráð í skilningi samkeppnislaga þegar Brim eignaðist 34 prósenta hlut í HB Granda þann 4. maí 2018.

 

Deila: