Nærri hálshöggvinn í miðjum línuróðri
Maður vikunnar er víðförull maður. Hann hefur starfað að ýmsum verkefnum víða um heim. Kennt mönnum að veiða fisk, meðal annars arabískum fursta og var nærri því hálshöggvinn í miðjum línuróðri í Malasíu. Nú er hann hafnarstjóri Ísafjarðarbæjar.
Nafn:
Guðmundur M. Kristjánsson.
Hvaðan ertu?
Bolungavík (skrifað ekki með r)
Fjölskylduhagir?
Giftur Halldóru Magnúsdóttur og í heild eigum við 4 börn og 6 barnabörn.
Hvar starfar þú núna?
Hafnarstjóri Ísafjarðarbæjar.
Hvenær hófst þú vinnu við sjávarútveg?
15 ára á handfæri með Ella Ketils í Bolungavík fyrsta launaða sjómannsstarfið.
Hvað er það skemmtilegasta við að vinna við íslenskan sjávarútveg?
Fjölbreytileiki bæði sem skipstjóri áður fyrr og svo núna sem embættismaður þá eru engir dagar eins.
En það erfiðasta?
Sem hafnarstjóri er erfitt að sjá ekki fram í tímann, hversu miklu verður landað á hverju ári. Það væri gott að geta haft það á hreinu þegar gerð er fjárhagsáætlun hvers árs. Svo var líka erfitt þegar það átti að höggva af mér hausinn í miðjum línuróðri í Malasíu.
Hvað er það skrýtnasta sem þú hefur lent í í störfum þínum?
Einu sinni tók ég að mér að kenna einum af erfðarprinsum í Sameinuðu Arabísku Furstadæmunum að fiska í troll og var að leika við hann í nokkra daga niður í Persaflóa að fiska í soðið.
Hver eftirminnilegasti vinnufélagi þinn?
Jón Hermannsson frá Þórshöfn á Langanesi.
Hver eru áhugamál þín?
Tónlist og matargerð.
Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?
Sjósiginn bútungur með góðu mörfloti og kartöflum.
Hvert færir þú í draumfríið?
Argentínu en þar bjó ég og starfaði um tíma.