Góð veiði og rígvænn makríll
Víkingur AK er nú á Vopnafirði en þangað kom skipið í gærkvöldi með um 770 tonna afla. Að sögn Alberts Sveinssonar skipstjóra hafa aflabrögð yfirleitt verið góð síðustu vikur en það hefur valdið vissum erfiðleikum að á sumum stöðum hefur síld blandast makrílnum. Síldina vilja menn helst ekki veiða fyrr en eftir makrílvertíðina.
,,Við vorum að veiðum út af Reyðarfjarðardjúpi en þaðan er um átta tíma sigling til Vopnafjarðar. Það var dálítið erfitt að forðast síld sem aukaafla en það gerist á hverju ári að síld kemur með makrílnum. Þá færir maður sig bara í von um að fá hreinan makríl,“ segir Albert í samtali á heimasíðu HB Granda, en að hans sögn hefur verið mikil ferð á makrílnum í norðausturátt.
,,Það var mjög góð veiði um verslunarmannahelgina en þá var aðalveiðisvæðið í Litladjúpi og Hvalbakshallinu. Núna er makríllinn kominn mun norðar og mér skilst að einhver skip hafi verið að veiðum út af Vopnafirði. Þetta er allt rígvænn fiskur, 500 grömm og þyngri, og enn sem komið er virðist ekki vera neitt lát á göngum upp að landinu.“
Albert segir einnig vera töluvert af makríl fyrir vestan land en uppsjávarskipin hafa ekki farið þangað til veiða.
,,Það hafa tveir togarar frá Grindavík verið að makrílveiðum fyrir vestan land en annar þeirra er nú kominn hingað austur. Það má vera að veiðin fyrir vestan hafi dalað eitthvað,“ segir Albert Sveinsson.