34 smábátar með meira en 30 tonna makrílkvóta

Deila:

Samkvæmt nýrri úthlutun Fiskistofu á heimildum til makrílveiða á þessu ári eru alls 480 bátar í B-flokki, það er smábátar sem stunda veiðarnar á færi. Það eru þeir sem höfðu veiðireynslu á árabilinu 2009 -2018.  Af þeim eru 377 sem fá minna en tonn í úthlutun, en 34 sem fá meira en 30 tonn samkvæmt frétt á heimasíðu Landssambands smábátaeigenda..

Aflahlutdeild færabáta er 2,24% sem færir þeim 2.857 tonn í veiðiheimildir á vertíðinni sem nú stendur yfir.  Við þær heimildir bætast 4.000 tonna pottur sem eyrnamerktur er smábátum.

Gera má ráð fyrir að um eitt hundrað bátar séu útbúnir til færaveiða á makríl og því ljóst að viðbótarkvóti upp á 4.000 tonn á eftir að koma sér vel fyrir aðila sem hafa hug á að hefja veiðar.

Umsóknir sem berast fyrir miðnætti hvers föstudags eru afgreiddar í næstu viku þar á eftir. Hámarksúthlutun hverju sinni eru 35 tonn.

Rétt er að vekja athygli á að þeir bátar sem enga úthlutun hafa fengið þurfa að flytja til sín aflamark til að geta hafið veiðar og öðlast þá samtímis rétt til að fá úthlutað viðbótakvóta.

Úthlutun til færabáta 2019.pdf

 

Deila: