Tæknibylting og matvælaöryggi á World Seafood Congress 2017 í Hörpu

Deila:

Fiskréttir prentaðir úr íslenskum hráefnum, tæknibylting í matavælageiranum og matvælaöryggi er meðal þess sem fjallað verður um á World Seafood Congress (WSC) í Hörpu dagana 11.-13. september.  Því er spáð að næsta tæknibylting verði í matvælageiranum en fjárfestar sem áður settu peninga í upplýsingatæknibyltinguna í Bandaríkjunum fjárfesta nú í sprotafyrirtækjum sem eru líkleg til að umbylta matvælamarkaðinum með nýrri tækni og vörum.  Ein birtingarmynd þessarar þróunar eru rannsóknir og prófanir sem nú fara fram á dreifingu matvæla með drónum.

Matís, sem er umsjónaraðili World Seafood ráðstefnunnar á Íslandi, hefur þegar fest kaup á matvælaprentara sem verður sýndur á ráðstefnunni. Sérstakur rannsóknahópur á vegum Matís mun næstu misserin vinna að því að þróa aðferðir til að nýta íslenskt sjávarfang sem efnivið fyrir matvælaprentara og er hópurinn meðal annars í samstarfi við kokkalandslið Íslands.

WSC er einn stærsti vettvangur heims sem fjallar um verðmætasköpun og matvælaöryggi í sjávarútvegi. Meginþema ráðstefnunnar í ár „Vöxtur í bláa lífhagkerfinu“ er tilvísun í mikilvægi hafsins þar sem veruleg tækifæri eru til vaxtar, nýsköpunar, rannsókna og markaðssetningar með matvælaöryggi, fæðuöryggi og sjálfbærni að leiðarljósi.

Ráðstefnan er á vegum IAFI (International Association of Fish Inspectors) sem eru samtök fag- og eftirlitsaðila í fiskiðnaði. Hún er haldin annað hvert ár og hana sækja starfsmenn útgerða og fiskvinnslu, fjárfestar og fólk úr stofnana- og menntaumhverfinu víða um heim.  Eftirsótt er að halda ráðstefnuna og er Ísland fyrst Norðurlanda til þess.

Það felast mikil tækifæri í því fyrir íslenskan sjávarútveg að fá WSC hingað til lands til að kynna fyrir hvað hann stendur og hitta erlenda frumkvöðla sem einnig eru að fást við nýsköpun og þróun í sjávarútvegi.  Meðal fyrirlesara verða Lynette Kucsma einn af hönnuðum fyrsta matvælaprentarans, Oliver Luckett, áhrifavaldur á samfélagsmiðlum (e.social media influencer) og fyrrum yfirmaður nýsköpunar hjá Disney og Anthony Wan, upphafsmaður Gfresh, stærsta stafræna markaðstorgs fyrir sjávarafurðir. Þá mun Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands ávarpa ráðstefnuna.

Enn er opið fyrir skráningar á ráðstefnuna á heimasíðu WSC, www.wsc2017.com

 

Deila: