Biðjast ekki afsökunar

Deila:

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar ætlar ekki að biðjast afsökunar á ummælum Gísla Halldórs Halldórssonar bæjarstjóra sem hann lét fall um störf starfshóps um endurskoðun í fiskeldi. Þrír nefndarmenn fóru fram á afsökunarbeiðnina, þeir Kjartan Ólafsson stjórnarformaður Arnarlax, Guðmundur Gíslason stjórnarformaður Fiskeldis Austfjarða og Óðinn Sigþórsson fulltrúi Landssambands veiðifélaga í starfshópnum. Í bréfi þremenninganna til bæjarráðs, sem var tekið fyrir á fundi ráðsins í dag, er tekið fram að ef bærinn biðji þá ekki opinberlega afsökunar áskilji þeir sér rétt til að fá ummælin ómerkt með öðrum úrræðum, sem getur ekki þýtt annað en málshöfðun.

Gísli Halldór Halldórsson

Á sérstökum bæjarstjórnarfundi um fiskeldismál í lok ágúst fjallaði Gísli Halldór um störf starfshópsins og sagði að þar hafi farið fram hrossakaup hagsmunaaðila og þeir plottað um að skipta landinu upp í sjókvíaeldissvæði.

Bæjarráð bendir á og áréttar að bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar ber ábyrgð á eigin ummælum á bæjarstjórnarfundi, en ekki bæjarstjórn.

Bæjarráð vekur athygli á að það hefði ekki átt að þurfa að koma nefndarmönnum á óvart að tillaga þeirra um að loka Ísafjarðardjúpi fyrir laxeldi væri umdeild og myndi skapa miklar umræður. Nefndarmenn hljóta að hafa gert sér grein fyrir því.

Bæjarráð vill jafnframt hvetja alla aðila þessa máls til þess að missa ekki sjónar á aðalatriðinu sem er að tryggja að laxeldi hefjist í Ísafjarðardjúpi eins fljótt og auðið er. Til að svo sé þurfa allir hagsmunaaðilar að vinna saman og hugsa í lausnum.

Frétt og mynd af fréttavefnum bb.is

 

 

Deila: