Góð makrílveiði i Síldarsmugunni

Deila:

Það er ekki oft að bæði uppsjávarveiðiskip HB Granda séu samtímis í höfn á Vopnafirði en það gerðist þó í gærmorgun er Víkingur AK kom til hafnar áður en Venus NS létti landfestum. Bæði skipin hafa verið að makrílveiðum á alþjóðlega hafsvæðinu á milli Íslands og Noregs, sem nefnt hefur verið Síldarsmugan, og að sögn Róberts Axelssonar, skipstjóra á Venusi, í samtali á heimasíðu HB Granda, hefur veiðin verið góð.

,,Bæði skip hafa farið tvo túra í Smuguna og það hefur gengið vel að ná í skammtinn fyrir vinnsluna. Í fyrri túrnum okkar vorum við innan við sólarhring að fá rúmlega 1.000 tonn og við vorum með svipað magn í seinni túrnum. Þá fengum við góða veiði til að byrja með en þá brældi og það tók okkur dálítinn tíma eftir bræluna að finna fiskinn aftur,“ segir Róbert en hann segir það vera mjög erfitt að fylgja makrílnum eftir þegar hann gengur út á dýpið nema skipin séu þeim mun fleiri.

Róbert segir makrílinn, sem skipin hafa fengið í Smugunni fram að þessu, vera heldur smærri en þann sem veiddist í íslensku lögsögunni fyrr í sumar en það sé þó lítið að marka vegna þess hve makríllinn hefur verið stór.

,,Þetta er mjög vænn makríll, sem við höfum verið að veiða í Smugunni, en nú heyrist mér á mönnum að það hafi orðið vart við mjög stóran makríl norðarlega í Smugunni. Ég er ekki með kvótastöðuna á hreinu en mér kæmi ekki á óvart ef skipin ættu eftir að fara tvo túra hvort í Smuguna áður en síldveiðar hefjast,“ sagði Róbert Axelsson.

Deila: