Aflinn fékkst í sjö hollum

Deila:

Sl. nótt kom Vilhelm Þorsteinsson EA til Seyðisfjarðar með 2.450 tonn af kolmunna. Þetta kemur fram á vef Síldarvinnslunnar. Þar er rætt við Guðmund Þ. Jónsson skipstjóra „Við fengum þetta á gráa svæðinu suðaustur af Færeyjum. Aflinn fékkst í sjö hollum. Það var lítið fyrst hjá okkur en síðan fékkst góður afli. Það er þarna fiskur á stóru svæði en það eru fá skip að veiðum núna. Við klárum að landa í kvöld og þá eru allir kvótar uppurnir hjá okkur í ár. Á siglingunni heim til Akureyrar er ætlunin að kíkja eftir loðnu og það verður spennandi,“ er haft eftir honum.

Í fréttinni er einnig rætt vi Eggert Ólaf Einarsson, verksmiðjustjóra í fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði. Afar gott sé að fá hráefni til vinnslu á þessum tímapunkti. „Síðasti farmurinn sem við fengum kom í byrjun nóvember. Þetta er gott hráefni sem við erum að fá núna, fínasti fiskur og vel kældur. Nýjustu fréttir eru þær að Barði NK sé á leiðinni með rúmlega 2.100 tonn. Þá hefur Beitir NK verið að fiska vel. Þessir kolmunnafarmar eru væntanlega þeir síðustu á árinu,“ segir Eggert Ólafur.

Deila: