Viðskipti með fisk á heimsvísu aldrei verið meiri

Deila:

Viðskipti með fiskafurðir stefna í það að verða meiri en nokkru sinni á mælikvarða heildarverðmæta afurðanna. Þar er laxinn í forystu samkvæmt upplýsingum frá Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna, FAO. Gert er ráð fyrir að viðskipti með fiskafurðir nemi 150 milljörðum Bandaríkjadala á árinu, eða um 15.900 milljörðum íslenskra króna. Það er 7% aukning frá árinu 2016, en hæstu hæðum áður náðu þessi viðskipti árið 2014 í 15.800 milljörðum króna.

Fiskur er sú afurð sem mest viðskipti eru stunduð með. Þar ræður gífurleg aukning í fiskeldi mestu, en það hefur verið sá atvinnuvegur í framleiðslu matvæla sem hraðast hefur vaxið síðustu 20 árin.

Batnandi afkoma í þróunarlöndunum hefur aukið eftirspurn eftir kjöti og fiski og stöðug eftirspurn hefur verið eftir fiski á hefðbundnum mörkuðum eins og í Bandaríkjunum, Japan, Frakklandi og á Spáni.

Góð afkoma hefur verið í laxeldi frá árinu 2012 og hefur það skilað miklum arði. Marine Harvest er stærsti framleiðandi á laxi í heiminum, hefur skilað mun meiri hagnaði en framleiðsla á próteini almennt og miklu meiri en landbúnaðargeirinn.

Þessi staðreynd hefur leitt til þess að fyrirtæki í landbúnaði sækja nú í vaxandi mæli inn í fiskeldið. Bandaríska fyrirtækið Cargill keypti til dæmis norska fóðurframleiðslufyrirtækið Ewos fyrir ríflega 170 milljarða íslenskra króna og japanska samsteypan Mitsubishi greiddi 148 milljarða króna fyrir norska laxeldisfyrirtækið Cermaq.

Framboð á fiski mun halda áfram að aukast þökk sé fiskeldinu samkvæmt mati FAO. Gert er ráð fyrir að fiskeldi í heiminum vaxi um 4 til 5% á ári næsta áratuginn og þannig verði aukningin orðin um þriðjungur árið 2026. Veiðar skila um 100 illjónum tonna og hafa gert svo um tíma. Ekki er gert ráð fyrir að aukning verði í veiðunum.

Spáð er að heildarframleiðsla úr eldinu  fari yfir 100 milljón tonna markið í fyrsta sinn árið 2025 og að hún nái 102 milljónum tonna árið 2026.

Engu að síður verða eldisfyrirtækin að taka tillit til vaxandi áhuga neytenda á umhverfismálum og byggja á sjálfbærni til langframa. Það gæti hægt á vextinum.

 

Deila: