Hægt að byggja upp umhverfisvænna laxeldi
Forstjóri Hafrannsóknastofnunar telur að ekki líði á löngu þar til hægt verður að ala skaðminni lax en er nú notaður í eldi við Íslandsstrendur. Hann segir í samtali við ruv.is að Íslendingar séu í lúxusstöðu til að byggja upp laxeldi á umhverfisvænan hátt.
Áhættumatið miðar við eldisaðferðir nú
Ekki er útlokað að laxeldi geti hafist í Ísafjarðardjúpi þótt lagst sé gegn því í áhættumati Hafrannsóknastofnunar. Sigurður Guðjónsson, forstjóri stofnunarinnar, segir að áhættumatið miðist við þær aðferðir sem notaðar eru í fiskeldi í dag og það geti breyst. Nýjar forsendur geti til dæmis verið kynbætur á eldisstofninum svo hann verði seinna kynþroska og útsetning stærri seiða að hausti. Breytingar sem gætu dregið úr hættu af eldinu: „Það var nú lagt upp með að þetta yrði gert að lágmarki á þriggja ára fresti en það er í rauninni ekkert sem hindrar endurmat komi fram nýjar forsendur.“ Sigurður segir að að umræður um breyttar aðferðir hafi átt sér stað við eldisfyrirtækin en allt taki þetta tíma, mislangan eftir því hvar þekkingarstigið er. Þá eru niðurstöður vöktunar einnig hafðar til grundvallar endurmati. Endurmat get þó bæði leitt til hækkunar og lækkunar á leyfilegu magni á laxeldi.
Þróa ófrjóan lax sem stendur sig vel í eldi
Sigurður telur að með frekari þróun og rannsóknum sé ekki langt í að menn finni skaðminni lax til að ala: „Það er mikið rannsóknastarf unnið, sérstaklega í Noregi, að finna og þróa lax sem er ófrjór en stendur sig samt vel í eldi.“ Hann telur að innan fárra ára verði slíkur lax kominn á markað. Á Íslandi vinnur Stofnfiskur að þróun geldfiska en þrílitna ófrjór lax hefur verið framleiddur hjá fyrirtækinu. Fyrirtækið hefur selt lax til Noregs en framkvæmdastjóri fyrirtækisins segir laxinn vera viðkvæmari en sá tvílitna.
Áhættumatið rýnt af erlendum vísindamönnum
Í kvöldfréttum í fyrrakvöld greindi sjávarútvegsráðherra frá því að til standi að áhættumat Hafrannsóknastofnunar fari í rýni erlendra sérfræðinga. Sigurður segir að matið verði rýnt af alþjóðlegum hópi sem hefur hefur starfað ásamt Hafrannsóknastofnun við að leita leiða til að draga úr áhættunni af laxeldi. Hann vekur einnig athygli á því að tveir mjög færir vísindamenn hafi unnið áhættumatið með Hafrannsóknastofnun. Þá er vísindagrein í undirbúningi.
Í betri stöðu en Norðmenn
Sigurður segir að hluti af áhættumatinu hafi verið lengi í umræðunni á vísindalegum vettvangi – hvað gerist þegar lax fer upp í ár. Það sem sé nýtt á þessum vettvangi sé að meta líkurnar á því að lax fari upp í ár, áður en það gerist: „Við erum náttúrlega í lúxusstöðu að eldið er ekki komið svo langt af stað hjá okkur að við getum byggt það upp á þann hátt að það verði umhverfislega í lagi – annað en Norðmenn geta sagt.
Stofnar sem ber að vernda
Til eru erfðarannsóknir á ánum tveimur sem helst er litið til varðandi blöndun á laxastofnun í Ísafjarðarfjúpi. Sigurður segir rannsóknina sína að stofnarnir eru náskyldir hvorum öðrum: „Þeir eru ólikir öðrum íslenskum stofnum en eru samt í hópi með norðlenskum laxi, erfðafræðilega séð. Þar sem þessir stofnar eru nokkuð langt frá öðrum laxi þá eru þeir með ákveðna sérstöðu. Á þeim forsendum eigum við að forðast það að skemma þá.“ Sigurður segir að vitað sé til þess að laxi hafi verið slept í Laugardalsá, seiðum úr Elliðaám, en að það sjáist ekki merki um þann stofn í dag.
Mynd og texti af ruv.is