Sagan af hruni þorskstofnsins við Nýfundnaland

Deila:

Hvers vegna hrundi stærsti þorskstofn í heimi og hvers vegna hefur hann ekki náð sér á strik, þrátt fyrir yfir tuttugu ára veiðibann? Leitast verður við að svara þessari spurningu í fyrirlestri  Dr. Georg A. Rose sem hann flytur hjá Hafrannsóknastofnun í næstu viku.

Þorskstofninn við Nýfundnaland í Kanada var einn afkastamesti fiskistofn sögunnar í tæpar fimm aldir. Árlegur afli var mest yfir 1,2 milljón tonn og stofnstærðin var metin á um 6 milljón tonn þegar mest var. Á tuttugu ára tímabili á seinni hluta tuttugustu aldar leiddi ofveiði til þess að stofnstærðin hrundi og að lokum var gripið til veiðibanns árið 1992. Þá var því spáð að nokkurra ára bann mundi duga til að stofninn næði aftur í fyrri stærð. Raunin varð hins vegar önnur og er veiðibannið enn í gildi árið 2016. Saga þorsksins við Nýfundnaland er oft notuð sem dæmi um hvernig samspil tækniframfara, mistaka við stofnmat og lélegrar fiskveiðistjórnunar getur eyðilagt endurnýtanlega náttúrauðlind á nokkrum árum. Í fyrirlestrinum verður fjallað um ástæður fyrir hruni þorskstofnsins og hvers vegna hann hefur ekki stækkað í fyrri stærð þrátt fyrir veiðibann.

Fyrirlesarinn er Dr. George A. Rose. Hann er kanadískur fiskifræðingur sem síðastliðin þrjátíu ár hefur unnið við rannsóknir á þorskstofninum við Nýfundnaland bæði fyrir kanadísku hafrannsóknastofnunina (Department of Fisheries and Oceans) og Memorial háskóla í St. John´s á Nýfundnalandi. George hefur birt yfir 100 ritrýndar vísindagreinar ásamt verðlaunafræðibók um þorskstofninum við Nýfundnaland (George A. Rose. 2007. Cod: An Ecological History of the North Atlantic Fisheries. Breakwater Books, St. John´s, NL, Canada. 591pp), hann er einnig aðalritstjóri vísindatímaritsins Fisheries Research.

Fyrirlestur Dr. George Rose er á vegum Hafrannsóknastofnunar, í samstarfi við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og Umhverfis- og auðlindafræði í Háskóla Íslands í húsi Hafrannsóknastofnunar á Skúlagötu 4 (1. hæð), Reykjavík miðvikudaginn 18. janúar, 2017, klukkan 14:00 – 15:00.
Allir velkomnir og ókeypis aðgangur. Fyrirlesturinn verður á ensku.

 

 

Deila: