Jákvæður tónn í samningaviðræðum

Deila:

Bjartsýni ríkir varðandi um að lausn finnist á deilu sjómanna og útgerðarmanna. Deilendur funduðu í rúma tvo tíma í dag og nýr fundur hefur verið boðaður á morgun.

Samninganefndir sjómanna, vélstjóra og útgerðarmanna komu til fundar hjá Ríkissáttasemjara klukkan 13 í dag og lauk fundinum á fjórða tímanum. Eftir síðasta fund, sem var á fimmtudaginn í síðustu viku, var þungt hljóð í mönnum, en í fréttum helgarinnar heyrðist hins vegar meiri bjartsýni og svo virðist sem ekkert hafi dregið úr bjartsýninni eftir fundinn í gær, samkvæmt frétt á ruv.is

„Fundurinn var bara góður, menn voru á jákvæðu nótunum allir saman og við ætlum að ræða saman aftur klukkan eitt á morgun og vonandi tekst okkur bara að ljúka þessu eins og stefnt var að,“ segir Konráð Alfreðsson varaformaður Sjómannasambands Íslands.

Svipað viðhorf var að heyra hjá Heiðrúnu Lind Marteinsdóttur framkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. „Fundurinn gekk ágætlega. Það er ágætt hljóð  í mönnum þrátt fyrir snúna stöðu, en ég hef sagt að það er jákvætt að við séum að ræða saman og viðræðum verður framhaldið, þannig að því leytinu til getum við verið bjartsýn.“

Heiðrún Lind segir fundinn hafa verið framhald síðasta fundar, en farið betur ofan í málin. Hún segir mikla pressu á samningafólki að klára málin, en ómögulegt sé að segja hversu langan tíma það taki.

 

 

Deila: