Bann við humarveiðum væri „grafalvarlegt“

Deila:

Ekki er spurning hvort, heldur hvenær humarveiðar verða minnkaðar stórlega eða jafnvel bannaðar, segir fiskifræðingur. Sviðsstjóri hjá Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum segir að bann myndi hafa mikil áhrif en meira hafi sést af ungum humri nú í upphafi vertíðar en síðustu ár. Miklar takmarkanir og jafnvel bann, hefðu mest áhrif í Þorlákshöfn, Vestmannaeyjum og á Hornafirði samkvæmt frétt á ruv.is.

Í erindi sem Jónas Páll Jónasson, fiskifræðingur á Hafrannsóknastofnun, hélt í síðustu viku, kom fram að nýliðun í humarstofninum hafi verið afleit í 13 ár og rannsóknir bendi til þess svo verði áfram. Humarveiðar við Ísland hafi alltaf verið sveiflukenndar, en nýliðun stofnsins aldrei verið metin jafn lítil og nú. Dregið hefur verið úr veiðum en Jónas segir í samtali við Fiskifréttir að ef ekki verði breyting sé aðeins tímaspursmál hvenær veiðar verði bannaðar eða takmarkaðar við rannsóknir.

Vilja yfirbyggja veiðibann og tryggja viðgang stofnsins

Þrjú fyrirtæki veiða og vinna nær allan humar við Ísland. Skinney Þinganes á Hornafirði, Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum og Rammi í Þorlákshöfn. Jón Páll Kristófersson, rekstrarstjóri Ramma, segir grafalvarlegt ef veiðar verði bannaðar en humarinn sé mikilvægasta tegundin í veiðum og vinnslu fyrirtækisins í Þorlákshöfn, tvo þriðju hluta úr árinu. Hagsmunaaðilar í greininni vilji fá fund með HAFRÓ og fara yfir stöðuna. Þeir vilja allt gera að fyrirbyggja algjört veiðibann og tryggja viðgang stofnsins.

Ferðamenn vilja íslenskan humar

Skinney-Þinganes á Höfn veiðir mest allra og á Hornafirði gera veitingastaðir út á að selja ferðamönnum íslenskan humar. Samkvæmt upplýsingum frá Skinney hefur nú í upphafi vertíðar sést meira af smáhumri sem er jákvætt. Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum hefur sömu sögu að segja. „Við byrjuðum strax eftir páska að veiða og veiðin hefur svo sem gengið alveg sæmilega og hefur verið umfram væntingar hvað varðar magn. Þá jákvæðasta er að við höfum séð svolítið af smáhumri sem menn hafa talað um að vantaði í veiðina hingað til,“ segir Sverrir Haraldsson en hann stýrir botnfiskssviði Vinnslustöðvarinnar.

Veiðibann mynd bitna bæði á föstum starfsmönnum og ekki síður skólafólki sem hefur fengið sumarvinnu í humri í Eyjum. „Það hefði náttúrlega mikil áhrif ekki síst á þann hóp. Það er viðbúið að fólk þyrfti að leita annað eftir störfum.“

 

Deila: