Hlýrri sjór norðan við landið

Deila:

Rannsóknaskipið Bjarni Sæmundsson var í leiðangri til rannsókna á ástandi sjávar, næringarefnum, plöntusvifi og dýrasvifi á miðunum umhverfis landið 15. – 26. maí síðastliðinn. Frá þessu greinir á vef Hafrannsóknastofnunar.

Þar segir að frá því 1950 hafi verið gerðar athuganir á umhverfi og grunnþáttum vistkerfisins að vori eða í byrjun sumars. Mælistöðvarnar mynda línur eða snið út frá landinu. Flestar mælistöðvarnar eru nefndar eftir kennileitum á landi. Sjórannsóknir lýsa athugunum nánar.

Athuganir voru nú gerðar á alls 78 rannsóknastöðvum umhverfis landið, bæði á landgrunni og utan þess (mynd 1). Á völdum stöðvum var sýnum safnað vegna rannsókna á karbónatkerfi sjávar og til mælinga á geislavirkum efnum.

Innflæði hlýsjávarins norður fyrir land var töluvert meira en í fyrra en það sést vel á mynd 1 sem sýnir sjávarhita á 50 metra dýpi.

Sjávarhiti (mynd 2) í efstu 50 metrum sjávar í hlýsjónum úti fyrir Suður- og Vesturlandi var á bilinu 7,9-8,3°C, Það er lítillega undir hita viðmiðunartímabilsins 1991-2020 en þrálátar lægðir í vor hafa viðhaldið lóðréttri blöndun sjávarins sem hægir á hlýnun yfirborðslagsins.

Seltan var nálægt meðaltali viðmiðunartímabilsins. Seltan hefur farið vaxandi undanfarin ár frá því lágmarki sem mældist árið 2017. Þetta bendir til að hlýsjórinn að sunnan hafi verið með svipuðum eiginleikum og undanfarin ár.

Sjá nánar hér.

Deila: