Hafa fiskað 4.500 tonn á tæpum sjö mánuðum

Deila:

,,Við byrjuðum í febrúar sl. og mér telst til að aflinn sé kominn í um 4.500 tonn. Þetta eru feykilega öflug skip og miðað við aflabrögðin og ef veiðiheimildirnar gæfu tilefni til þá væri leikur einn að fara vel yfir 7.000 tonn á fiskveiðiárinu.“

Eiríkur Jónsson skipstjóri á Sturlaugi H. Böðvarssyni

Þetta segir Eiríkur Jónsson, skipstjóri á ísfisktogaranum Akurey AK, í samtali á heimasíðu HB Granda. Hann er einn hinna þriggja nýju togara sem smíðaðir voru fyrir HB Granda í Tyrklandi. Eiríkur er ánægður með skipið og aflabrögðin í sumar en hann segir að menn þurfi að leggja á sig langar siglingar til að veiða þorsk á þessum árstíma.

,,Gott dæmi um þetta er yfirstandandi veiðiferð. Við byrjuðum á að sigla í 30 tíma til að komast í þorsk. Trollið var sett út norðan við Kolbeinsey. Þar vorum við að veiðum í 30 tíma og fengum um 90 tonn af stórum og góðum þorski. Síðan var aftur siglt í 30 tíma suður á Fjöll og þar höfum við verið í mjög góðri gullkarfa- og ufsaveiði. Við komum svo inn til löndunar á þriðjudagsmorgni og svo verður aftur haldið út á miðvikudag,“ segir Eiríkur Jónsson.

Svo virðist sem að besti karfaveiðitíminn á Vestfjarðamiðum sé að fjara út. Lítið sést til gullkarfa á Halanum og veiði í Víkurálnum er gloppótt. Því eru auknar líkur á að heimamið ísfisktogara HB Granda við Suðvesturland komi sterk inn á næstunni.

Deila: