Verð íslenskra sjávarafurða áfram hátt

Deila:

Verð íslenskra sjávarafurða í erlendri mynt hefur áfram haldist hátt á síðustu mánuðum og er það nú nálægt því sögulega hámarki sem það náði í janúar á þessu ári. Verðið hefur verið í mjög ákveðnum hækkunarfasa allar götur síðan í byrjun árs 2013, eða í rúm fimm ár. Líkt og gerðist með flestar aðrar hrávörur lækkaði verðið töluvert árið 2009 en tók síðan að hækka og náði tímabundnu hámarki í kringum áramótin 2011-2012. Síðan tók það að lækka en hefur hækkað nær stöðugt frá ársbyrjun 2013. Frá því að verðið náði tímabundnu lágmarki í febrúar 2013 hefur það hækkað um 27,7%. Það gerir um 4,6% hækkun á ársgrundvelli. Til samanburðar hefur verðbólga á evrusvæðinu verið að meðaltali 0,7% á ári á þessu tímabili.

Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans um sjávarútveg og segir þar ennfremur:

Skipta má útflutningi sjávarafurða í annars vegar botnfisk og hins vegar uppsjávarfisk. Botnfiskurinn hefur lengi vegið umtalsvert meira en uppsjávarfiskur í útflutningi sjávarafurða. Verð á botnfiski hefur hækkað töluvert á síðustu misserum og er það helsta skýringin á hækkandi verðlagi íslenskra sjávarafurða í heild sinni.

Verð á botnfiski helst í hendur við heimsmarkaðsverð kjöts

Verð íslenskra sjávarafurða

Hækkunin á íslenskum botnfiskafurðum síðustu misseri hefur komið til á sama tíma og hækkun heimsmarkaðsverðs á kjöti. Nokkur söguleg tengsl hafa verið á milli verðs á kjöti og verðs botnfiskafurða frá Íslandi. Ef horft er á tölurnar á ársfjórðungsgrundvelli sést að verðþróun kjöts hefur áhrif á verðþróun sjávarafurða á sama fjórðungi og næsta fjórðungi á eftir sé litið yfir allt tímabilið frá árinu 2006. Sé hins vegar öllu tímabilinu skipt upp í tvö tímabil kemur í ljós að þessi tengsl eru missterkt á þessum tveimur tímabilum. Þessi tengsl eru veruleg á fyrra tímabilinu og má segja að verðþróun á kjöti hafi skýrt töluvert mikið af breytileikanum í verði sjávarafurða. Þessi tengsl eru hins vegar ekki til staðar á seinna tímabilinu og því hefur verð sjávarafurða ákvarðast af því er virðist óháð verðþróun á kjöti.

Þetta eru því sterkar vísbendingar um að þessi tengsl hafi rofnað og að verðþróun á íslenskum botnfiskafurðum sé ekki lengur háð verðþróun á heimsmarkaðsverði kjöts. Hvort að svo verði áfram verður framtíðin hins vegar að leiða í ljós. Sé litið yfir lengri tímabil sést að tengslin þurfa ekki alltaf að vera sterk. Sem dæmi lækkaði verð á kjöti á einu og hálfu ári frá ágúst 2014 um tæplega þriðjung. Á sama tímabili hækkaði verð á botnfiski um 8,2%.

Verðhækkunin dregur úr áhrifum styrkingar krónunnar

Verð íslenskra sjávarafurða gengi

Hátt verð á botnfiski að undanförnu kemur sér vel fyrir íslenskan sjávarútveg sem glímir nú við minnkandi samkeppnishæfni vegna sterkrar krónu. Krónan hefur styrkst mikið frá árinu 2015. Milli áranna 2015 og 2016 styrktist gengisvísitala krónunnar um 11,8% og um 12,2% milli áranna 2016 og 2017, en hér er um að ræða sögulegt met á styrkingu krónunnar milli ára. Til samanburðar hækkaði verð sjávarafurða í erlendri mynt um 4,5% milli 2015 og 2016 og um 5,7% milli 2016 og 2017. Út frá því má ætla að afurðaverð í krónum hafi lækkað um 6,5% milli 2015 og 2016 og 5,8% milli 2016 og 2017.

Á fyrri helmingi ársins var gengisvísitala krónunnar 1,7% veikari en á sama tímabili í fyrra. Til samanburðar hækkaði afurðaverðið um 4,6% í erlendri mynt milli sömu tímabila. Afurðaverð í krónum hækkaði því um 2,8% milli sömu tímabila.

Veiðar á þorski rétta úr kútnum eftir sjómannaverkfallið

Þorskveiðar hafa aukist aftur eftir verulegan samdrátt milli áranna 2016 og 2017 vegna sjómannaverkfallsins sem stóð yfir í rúmlega tvo mánuði fram undir lok febrúar á síðasta ári. Það sem af er fyrstu 7 mánuðum ársins hafa þorskveiðar numið 165,6 þúsund tonnum. Það er töluvert meiri veiði en á sama tímabili í fyrra þegar þær námu 136,1 þúsund tonnum. Veiðarnar í ár eru því 21,7% meiri en á sama tímabili í fyrra. Þær eru einnig töluvert meiri en á sama tímabili árið 2016. Þá námu þær 155,7 þúsund tonnum og eru veiðarnar í ár því 6,3% meiri en þá. Töluvert meiri veiði á þessu ári en árið 2016 má að hluta til rekja til þess að útgerðir fengu leyfi til að flytja allt að 30% aflaheimilda sinna milli fiskveiðiára til að mæta minni veiðum vegna verkfallsins.

Aukið útflutningsverðmæti sjávarafurða skýrist að miklu leyti af meiri útflutningi þorsks Útflutningsverðmæti sjávarafurða nam 115,3 mö.kr. á fyrri árshelmingi borið saman við 92,9 ma.kr. á sama tímabili í fyrra. Mismunurinn nemur 22,4 mö.kr. sem er 18,8% aukning milli ára. Sé horft til einstakra fisktegunda skýrist meira aflaverðmæti að langmestu leyti af auknum útflutningi á þorski. Útflutningsverðmæti þorsks nam 49,8 mö.kr. á fyrri hluta þessa árs borið saman við 39 ma.kr. á sama tímabili í fyrra. Munurinn nemur 10,7 mö.kr. og er þarna um að ræða 19,8% aukningu milli ára. Útflutningur á þorski var að magni til 69,2 þúsund tonn á fyrri hluta ársins borið saman við 59,7 þúsund tonn á sama tímabili í fyrra. Aukningin nemur 15,9%. Það er minni aukning en sem nemur aukningu útflutningsverðmætis, sem var 19,8%. Það skýrist að miklu leyti af veikari krónu og hærra afurðaverði í erlendri mynt. Afurðaverð á ferskum þorski var að meðaltali 4,1% hærra í krónum talið á fyrri hluta ársins en á sama tímabili í fyrra.

Deila: