Metafli hjá Ljósafelli

Deila:

„Nú þegar yfirstandandi fiskveiðiár er að renna sitt skeið á enda liggur fyrir sú staðreynd að Ljósafell SU 70 hefur slegið aflamet. Það er komið yfir 5 þúsund tonn af veiddum afla!  Fiskveiðiárið er frá 1.september til 31.ágúst ár hvert og þegar þessi orð eru rituð eru nákvæmlega fjórir dagar eftir til loka ársins þannig að einhver tonn eiga eftir að bætast við lokatöluna.“ Svo segir í færslu á heimasíðu Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði. Þar segir ennfremur:

„Er aflinn í ár u.þ.b 46% hærri en meðalafli seinustu 16 ára.  Að þessu tilefni var áhöfninni á Ljósafelli færð terta rétt áður en lagt var af stað í 51. túr ársins.  Það var létt yfir áhöfninni og masað á léttum nótum í messanum á meðan menn gæddu sér á tertunni og Ólafur Helgi Gunnarsson skipstjóri skar fyrstu sneiðina og hafði það á orði að það mætti helst ekki skera í myndina af Ljósafellinu sem prýddi tertuna.

Ljósafell metafli

Aðspurður sagði Ólafur Helgi að megin ástæða þess hversu vel hefði gengið væru auknar fiskheimildir og stíf sjósókn. Hann sagði líka réttilega að togurum hefði fækkað þannig að færri skip væru á miðunum.  Þá lagði skipstjórinn áherslu á hversu mikilvægt það væri að hafa góða áhöfn. „Topp mannskapur“ sagði Ólafur Helgi.

Ljósafell er farsælt og gott skip. Orðið 44 ára gamalt með 28 ára gamla vél sem gengið hefur 170 þúsund vinnustundir og þjónar ennþá vel.   „Við höfum aðeins einu sinni verið dregnir í land“ sagði Ólafur Helgi kíminn, „og þá fengum við tjábol í skrúfuna“.  Skipstjórinn var að fara í frí þannig að greinarhöfundur naut þeirrar forréttinda að standa við hlið hans á bryggjunni og horfa á eftir Ljósafellinu, skipinu sem hann hefur talist til áhafnar á í tæp 40 ár,  sigla út fjörðinn í ljósaskiptunum og í huganum sendum við áhöfn og skipi góðar óskir um fengsæld og örugga heimkomu.“

 

Deila: