Fiskverðið hreinasta hörmung

Deila:

Að undanförnu hefur LS fengið fjölmörg símtöl þar sem menn lýsa hneykslun sinni yfir lágu fiskverði.  Fiskur af úrvalsgæðum nái ekki þeim verðum sem eðlilegt sé og verð milli einstaka markaða endurspegli ekki flutningskostnað. Um þetta er fjallað á heimasíðu Landssambands smábátaeigenda:

Vegna skerts upplýsingaflæðis frá Reiknistofu fiskmarkaða er ekki lengur hægt að skoða verð á einstaka mörkuðum nema í tæpan sólarhring eftir að uppboði lýkur.  Það var því aðeins dagurinn í gær fimmtudagurinn 29. júní sem verð var athugað að þessu sinni.  Fyrir valinu varð nýr óslægður þorskur veiddur á handfæri.   Meðalþyngd 2,7 – 3,5 kg – „blandaður góður“, sem er algeng stærð á strandveiðum í dag.

Athugunin leiddi í ljós að boðið var upp á 21 markaði alls 44,4 tonn.  Meðalverð aðeins 157 kr/kg. Hæsta verðið fékkst á Fiskmarkaði Suðurnesja í Sandgerði 176 kr/kg, lægsta verðið var hins vegar á Fiskmarkaði Íslands á Sauðárkróki 142 kr/kg.   Um fjórðungi hærra verð fékkst því í Sandgerði en á Sauðárkróki.

Á sama degi í fyrra voru seld 24 tonn af nákvæmlega eins flokkuðum þorski.  Meðalverðið 327 kr/kg.  Verðið hefur því hrunið milli ára, verðlækkunin meiri en það sem nú fæst, 52% lækkun – 170 krónur lægra verð.

Þegar leitað er skýringa er staða krónunnar nefnd sem aðalástæða.  Auk þess kostnaðarhækkanir við vinnslu, flutningskostnaður, lokun Rússlandsmarkaðar, minni kaupmáttar í Bretlandi.

Hærra verð í júní en maí

Þróun fiskverðs milli mánaða er þrátt fyrir framangreint jákvæð.  Meðalverð á fiskmörkuðum á óslægðum þorski í júní var að meðaltali 8,8% hærra en í maí.

Sjá nánar samantekt.pdf

 

 

 

Deila: