Salsagengi og „tvíbbar“ í vélarrúmi Gullbergs

Deila:

Efni standa til þess að stigin séu spor í salsadansi í vélarrúmi Gullbergs VE-292 þegar þannig stendur á. Víst er að fá ef nokkur önnur skip í íslenska flotanum eru mönnuð til slíkra hluta.

Reyndar á það kannski við um allt Evrópska efnahagssvæðið og þótt víðar væri leitað að vandfundnir eru vélstjórar sem hafa tileinkað sér dans undir áhrifum menningar á Spáni, í  Karabíahafinu og Suður-Ameríku.

Gullberg er hins vegar ekkert venjulegt skip. Það er áhöfnin heldur ekki.

Þetta er annars inngangur að framhaldsfrásögn um hrókeringar í Vinnslustöðvarflotanum. Við höfum til að mynda fjallað áður á þessum vettvangi um að Örn Friðriksson, yfirvélstjóri á Kap VE-4, hafi fært sig síðastliðið sumar yfir á Hugin VE-55 og að Ólafur Már Harðarson hefði tekið við af Erni um stund en verið svo ráðinn yfirvélstjóri á Gullbergi. Fjallað er um þessar hrókeringar á heimasíðu Vinnslustöðvarinnar.

Salsagengið saman komið á ný

Þá víkur sögunni að umfjöllunarefni dagsins, tvíburabræðrunum og vélstjórunum Halldóri Gústafi  og Theodóri Hrannari Guðmundssonum. Þeir störfuðu í vélarrúmi Kap, Theodór sem fyrsti vélstjóri en Halldór sem annar vélstjóri. Báðir færðust upp um þrep í ábyrgðarstiganum þegar Ólafur Már fór á Gullberg.

Svo var Kapinni lagt og nú eru tvíburarnir komnir í áhöfn Gullbergs og að sjálfsögðu í vélarrúmið þar, Theodór sem fyrsti vélstjóri og Halldór sem annar vélstjóri. Þar með hefur líka salsagengið sameinast að nýju í Gullbergi í enn stærra og dansvænna rými en var á Kap.

– Hvað er annars verið að þvæla hér aftur og fram um salsaspor og dansandi vélstjóra? spyr nú margur lesandinn, undrandi og óþolinmóður.

Hér er svarið.

Theodór:

„Ég var fyrst í afleysingatúr á Ísleifi VE á makrílveiðum 2017. Á árinu 2018 fór ég í afleysingatúr á Kap á kolmunna og var á dekki. Þá var ég hléi í námi í Vélskólanum í Reykjavík og fór svo aftur í skólann. Þá sótti ég námskeið í salsadansi og kynntist Óla Má, núverandi yfirvélstjóra á Gullbergi, og hitti hann líka í skólanum. Hann hefur dansað salsa á fullu gasi í mörg ár og er þar reynslubolti líka, ekkert síður en í vélfræðinni.

Við vinnum sem sagt saman og höfum líka dansað saman!

Eftir skólann fór ég í fast pláss á Kap sem fyrsti vélstjóri.“

­– Hvað með þig, Halldór, er salsadans líka í reynslubankanum þínum?     

Halldór:

„Nei, ég prófaði salsa en fann mig ekki þar. Ég er hins vegar nýbyrjaður í golfi og viðurkenni að vera kominn með golfbakteríu í kroppinn. Teddi bróðir hefur hins vegar spilað golf árum saman.“

Reykvíkingar með vestfirskar rætur

Halldór og Theódór eru fæddir og uppaldir Reykvíkingar en eiga ættir að rekja til Vestfjarða og voru oft þar vestra á sumrin. Faðir þeirra var áður á sjó á Reykhólum, Þingeyri og Ísafirði, meðal annars sem vélstjóri á Karlsey BA og Framnesi ÍS. Hann hætti sjómennsku þegar drengirnir voru barnungir.

Afi tvíburanna í föðurætt, Skúli Sigurðsson, var vélfræðingur hjá Eimskip og verkstjóri hjá Haraldi Böðvarssyni á Akranesi. Afi þeirra í móðurætt var Björn Elías Ingimarsson skipstjóri og útgerðarmaður. Hann var með Mími ÍS-30 og Finnbjörn ÍS-37.

Síðast en ekki síst ber að nefna til sögunnar langafann í móðurætt, Ingimar Finnbjörnsson skipstjóra og útgerðarmann. Sá var í hópi stofnenda Hraðfrystihússins í Hnífsdal sem síðar sameinaðist Gunnvöru og varð Hraðfrystihúsið Gunnvör – HG í Hnífsdal.

 

Þar með liggur fyrir að tvíburarnir eru genetískir sjóarar og sáu sjómennskuna snemma fyrir sér sem framtíðarstarf. Theodór tók samt fyrr af skarið fyrir sína parta en Halldór.

Theodór:

„Þegar okkur krökkunum í Grafarvogi var ætlað að byrja í unglingavinnu Reykjavíkurborgar gat ég það bara alls ekki vegna frjókornaofnæmis. Þá reddaði frændi minn mér vinnu á hvalaskoðunarbáti á Faxaflóa.

Þar byrjaði þetta hjá mér. Ég skrapp svo vestur sextán ára gamall og fór í línutúra frá Flateyri og leysti nokkrum sinnum af á bátum næstu sumur.

Ég stefndi alltaf að Stýrimannaskólanum í Reykjavík en ákvað sem betur fer að fara frekar í Vélskólann. Þá var ég kominn með brennandi áhuga á vélfræði.“

Halldór:

„Ég velti fyrir mér að læra bifvélavirkjun. Það var einhver konar unglingadraumur en ég var samt ekki viss um hvert ég vildi stefna. Pabbi okkar er vélfræðingur og eitt kvöldið útskýrði hann fyrir mér í hverju vélfræði fælist. Þar með ákvað ég að gerast vélfræðingur á skipi. Þetta var 2014.

Ég fór í Vélskólann en gerði hlé á náminu í tvö ár, var á sjó liðlega eitt ár til að ná í peninga og halda mér uppi þar til ég myndi útskrifast. Ég var fastráðinn á Kap VE 2020.“

– Fylgdust þið að gegnum vélfræðinámið?

Halldór:

„Já, á fyrsta árinu. Þá vorum við í sömu áföngum og lærðum saman heima. Eftir það völdum við mismunandi áfanga og Teddi kláraði skólann 2018 en ég 2020.“

­– Samrýmdir?

Báðir:

„Við þekkjum vel tvíburaríginn en þroskuðumst og uxum upp úr honum. Eimi eitthvað eftir af rígnum skiljum við hann eftir heima þegar við förum á sjó!

Við störfum vel saman og á sjónum erum við vinnufélagar miklu frekar en bræður.“

Halldór:

„Teddi er auðvitað með meiri reynslu en ég og hefur meiri ábyrgð sem vélstjóri, standandi einu þrepi ofan við mig í ábyrgðarstiganum.. Hann hefur því síðasta orðið þegar þarf að ákveða hvernig leysa skuli einhver verkefni eða vandamál sem upp koma. Það er sjálfsagt og eðlilegt.“

Theodór:

„Við fengum óvænta eldskírn sem vélstjórar og samstarfsmenn núna 2022 þegar aðalvélin í Kap bilaði og fleira fór úrskeiðis. Þetta var bilanasumarið mikla en endaði vel og við erum reynslunni ríkari.“

Takk, Örn Friðriksson

– Það hlýtur að mega spyrja ykkur á þriggja manna tali hvernig ykkur sem utanbæjarmönnum tekst að komast inn í samfélagið í Vestmannaeyjum?

Theodór:

„Hér er fínt fólk og ég kvarta alls ekki yfir viðtökunum.“

Halldór:

„Ég var beinlínis varaður við og mér sagt að Eyjasamfélagið væri lokað. Þannig upplifi ég það ekki, bara alls ekki. Eyjamenn er vinsamlegir en á köflum skemmtilega sérstakur þjóðflokkur sem vill okkur „nýbúum“ vel.“

Báðir:

„Við komumst ekki hjá því að nefna Örn Friðriksson núverandi yfirvélstjóra á Hugin VE. Honum eigum við margt og mikið að þakka fyrir allt sem hann kenndi okkur í faginu, fyrir almennilegheit og vináttu og fyrir að renna okkur mjúklega inn í Eyjasamfélagið.“

– Búið þið áfram í Reykjavík?

Halldór:

„Nei, við höfum keypt hvor sína íbúð í Vestmannaeyjum. Ég er fluttur hingað og sé alveg fyrir mér að setjast hér að til frambúðar.“

– Lagði Vinnslustöðin að ykkur að flytja?

Theodór:

„Nei, nei. Slíkt var aldrei nefnt en auðvitað segir sig sjálft að vélstjórar þurfa alltaf að vera nálægir til að sinna skipum sínum þegar þau eru stopp í höfn. Þá er einfaldlega ekki í boði að stunda vinnu í Vestmannaeyjahöfn en ætla sér að búa á meginlandinu.“

 

Deila: