Breyta verður lögum til að tryggja 48 daga á strandveiðum

Deila:

Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smánátaeigenda gerði strandveiðum skil á aðalfundi landssambandsins í gær. Lagði hann áherslu á réttinn til veiða í 48 daga á hverju sumri. Hann sagði einnig að Strandveiðar og línuívilnun væru sérstök veiðikerfi þar sem aflamarki væri ekki úthlutað. Því ættu þau að standa utan hins eiginlega aflamarkskerfis. Hér fer á eftir sá kafli Arnar sem fjallaði um strandveiðarnar:

„21. desember sl. ákvað matvælaráðherra að breyta reglugerð frá í júlí um strandveiðar.  Í stað viðmiðunar upp á 10 000 tonn varð hún færð niður í 8 500 tonn.   Smábátaeigendur ærðust við þessa ákvörðun og mótmælti LS henni harðlega á fundi með ráðherra þann 5. janúar.  „Sagði hana ganga þvert á þau markmið að tryggja 48 daga til strandveiða.“

Í framhaldi af viðræðum við ráðherra voru forystumenn ekki niðurlútir, heldur treystu á að ráðherra myndi endurskoða ákvörðunina sem myndi að óbreyttu grípa hastarlega inn í áform 700 útgerða sem byggðu á gildandi reglugerð frá júlí, auk þess að snerta flest öll byggðarlög landsins.  Í reglugerð um strandveiðar í lok apríl hafði ráðherra með réttu endurskoðað ákvörðunina og 10 000 tonn voru endurheimt.

Veiðar gengu almennt vel

Almennt má segja að strandveiðar hafi gengið vel sl. sumar.  Þau skilaboð voru gefin að við bestu aðstæður eins og þá voru, gæti afli farið í 13 500 tonn.  Strandveiðar eru hins vegar háðar því hvað fæst af þorski á skiptimarkaði Fiskistofu.  Það má ekki gerast aftur að loðna sem metin er til 0,36 þorskígilda falli niður í 0,031 á tilboðsmarkaði stofunnar.  Fyrir 35 þús tonn af loðnu fengust því ekki 12 632 tonn af þorski heldur 1 079 tonn.  Hefði aðeins fjórðungurinn skilað sér hefðu strandveiðar staðið út ágúst.  Ég lét hafa eftir mér í viðtali að það væri óþolandi staða að strandveiðar stæðu og féllu með duttlungum stórútgerðarinnar.  Auðvitað á það ekki að vera þannig.

Breyta verður lögum

Strandveiðar og línuívilnun eru sérstök veiðikerfi þar sem aflamarki er ekki úthlutað.  Þess vegna eiga þessi kerfi að standa fyrir utan eiginlegt aflamarkskerfi.  Það getur verið misjafnt hversu mikið veiðist ár frá ári.  Sjaldan fer saman einmunatíð eins og í sumar og hörkugott fiskirí.  Að sjálfsögðu á kerfið að geta mætt því.  Yfir langan tíma jafnast þetta út, t.d. getur hálfsmánaðarbræla um land allt sett allt úr skorðum og gert það að verkum að afli náist ekki á þeim 48 dögum sem ætlaðir eru til standveiða.  Hendi slíkt er óheimilt að bæta við tímabilið og jafnframt er innbyggt í kerfið, að dögum fjölgar ekki þrátt fyrir að nægar heimildir verði til staðar eins og átti sér stað árin 2018 og 2019.  Af þessum sökum og fjölmörgum öðrum eru engin rök fyrir því að ákvæði um stöðvun strandveiða innan tímabilsins eigi rétt á sér. Sátt er um að strandveiðar verði í 48 daga og standi yfir mánuðina maí, júní, júlí og ágúst.   Til að það gangi eftir verður að breyta lögum, fella brott ákvæði um að Fiskistofa skuli með auglýsingu í Stjórnartíðindum stöðva strandveiðar þegar sýnt er að leyfilegum heildarafla verði náð samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur.  Með því væri 48 daga strandveiðikerfi frá maí, til loka ágúst komið í lög.

Vanti stjórnvöldum enn meiri rök, geta þau hæglega búið þau til með því að breyta nýtingarstefnu fyrir þorsk og hafa þar inni fyrirvara um afla 48 daga strandveiðikerfis.“

 

 

Deila: