Kolmunninn á leið til Færeyja

Deila:

Barði NK kom með 1.230 tonn af kolmunna til Neskaupstaðar skömmu fyrir hádegi í gær. Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi við Runólf Runólfsson skipstjóra og spurði fyrst hvort veiðin hefði verið jafn góð og undanfarnar vikur.

„Nei, það hefur dregið úr henni. Nú virðist fiskurinn vera að dreifa sér og ganga suður eftir inn í færeysku lögsöguna. Þennan afla fengum við í sex holum og fór aflinn minnkandi með hverju holi. Í fyrsta holinu fengum við 260 tonn en einungis 70 í því síðasta. Annars er veiðin búin að vera góð í Rósagarðinum og á Þórsbankanum að undanförnu og við kvörtum ekkert.

Barði er búinn að fiska þarna hátt í 6000 tonn frá því í lok september og Beitir tók einn 2.000 tonna túr. Þá hafa fleiri skip verið að fá góðan afla. Þessar veiðar hófust seinna í fyrra og entust þá heldur lengur. Fiskurinn hefur göngu sína suður fyrr en í fyrra. Auðvitað er það mikilvægt að veiða kolmunna innan íslenskrar lögsögu og því eru þessar veiðar mikilvægar. Ég geri ráð fyrir því að kolmunnaveiðum verði hætt í bili og nú munum við þrífa skipið hátt og lágt og skipta um troll. Svo ætla menn að njóta árshátíðarinnar sem verður í Gdansk eftir rúma viku,“ segir Runólfur.
 Barði NK kemur til löndunar í gær. Ljósm. Smári Geirsson

 

 

Deila: