Fallist á matsáætlun Arctic Sea Farm

Deila:

Skipulagsstofnun hefur fallist á matsáætlun Arctic Sea Farm um 7.600 tonna laxeldi í Ísafjarðardjúpi. Næsta skref í umhverfismatsferlinu er frummatskýrsla sem þarf að liggja fyrir áður en Skipulagsstofnun gefur álit sitt á umhverfisáhrifum laxeldis Arctic Sea Farm í Ísafjarðardjúpi. Í athugasemdum stofnunarinnar við matsáætlunina kemur fram að í frummatsskýrslu þurfi meðal annars að gera ítarlega grein fyrir öðrum eldisaðferðum, svo sem með eldi á geldfiski eða í lokuðum í kerfum í stað sjókvía. Þeir kostir verði bornir saman við eldi á frjóum eldisfiski með tilliti til umhverfisáhrifa.

Í frummatsskýrslunni þarf einnig að gera ítarlega grein fyrir og meta hættu á að fiskur sleppi úr eldiskvíum og hverjar afleiðingar slíkra sleppinga geta orðið. Meta þarf hættu á erfðablöndun villtra laxastofna vegna fyrirhugaðrar framkvæmdar. Slíkt mat byggi meðal annars á áætlun um fjölda fiska sem sleppa úr eldi, upplýsingum um útbreiðslu og þéttleika laxfiska á Vestfjörðum og staðsetningu laxveiðiáa í Ísafjarðardjúpi og á Vestur- og Norðurlandi. Í frummatsskýrslu þarf jafnframt að gera ítarlega grein fyrir öryggisþáttum er varða eldisbúnað og verklag, sem varna eiga því að fiskur sleppi úr eldiskvíum.

Einnig er tekið fram að í frummatskýrslu þurfi að gera grein fyrir fyrir spá um líklega dreifingu smitsjúkdóma og laxalúsar frá eldissvæðum fyrirhugaðs eldis. Meta þarf áhættu af þeim þáttum fyrir villta laxfiska í Djúpinu og á Vestfjörðum.

Frétt af bb.is

Deila: