Stofn landsela hruninn

Deila:

Hafrannsóknastofnun leggur til að stjórnvöld leiti leiða til að koma í veg fyrir beinar veiðar á landsel og lágmarka meðafla landsela við fiskveiðar. Hafrannsóknastofnun leggur einnig til að veiðistjórnunarkerfi verði innleitt fyrir selveiðar við Ísland, og að skráningar á öllum selveiðum verði lögbundnar.

Fjöldi landsela var metinn um 33 þús. dýr árið 1980, en fjöldinn minnkaði hratt fram til 1989 og var þá um 15 þús. dýr. Síðasta talning landsels fór fram 2016 og var stofninn metinn um 7652 dýr. Samkvæmt matinu er stofninn nú 77% minni en árið 1980 og 36% undir stjórnunarmarkmiðum stjórnvalda sem er 12 þús. dýr. Dregið hefur úr hefðbundinni nýtingu selabænda á stofninum og er því nærtækustu skýringarnar á fækkun landsels að finna í óbeinum veiðum, meðafla við fiskveiðar, veiðum í ósum laxveiðiáa, óskráðum veiðum, og óhagstæðum umhverfisbreytingum.

Verulega hefur dregið úr hefðbundnum nytjum á landsel á undanförnum áratugum, vorkópaveiðar í net. Stærsti hluti selveiða er á ósasvæðum laxveiðiáa til að draga úr meintum áhrifum sela á stofna laxfiska. Afföll vegna óbeinna veiða, meðafla við fiskveiðar, eru enn umtalsverð. Takmörkuð gögn eru til um óbeinar veiðar, en mat sem unnið er úr gögnum sem safnað er af veiðieftirlitsmönnum og úr stofnmælingu með þorskanetum benda til að 1066 landselir hafi veiðst í grásleppunet árið 2015 og 160 árið 2014. Einnig veiddust 46 landselir í þorskanet á árið 2015 en engir árið 2014. Samkvæmt matinu veiddust 86 landselir í botnvörpu árið 2015.

Deila: