Starfsleyfi Háafells fellt úr gildi
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála ógilti í gær starfsleyfi Umhverfisstofnunar varðandi 6.800 tonna sjókvíaeldi regnbogasilungs Háafells ehf. í Ísafjarðardjúpi sem gefið var út 25. október á síðasta ári. Háafell er dótturfyrirtæki Hraðfrystihússins – Gunnvarar hf.
Það var Geiteyri ehf. og Akurholt ehf., sem eigendur Haffjarðarár í Hnappadal, Veiðifélag Laxár á Ásum, Atli Árdal Ólafsson, sem eigandi hluta veiðiréttar í Hvannadalsá, Langadalsá og Þverá í innanverðu Ísafjarðardjúpi, og Varpland ehf., eigandi hluta veiðiréttar í Langadalsá og Hvannadalsá í innanverðu Ísafjarðardjúpi, sem kærðu ákvörðun Umhverfisstofnunar um útgáfu starfsleyfis til Háafells.
Kæru Geiteyrar ehf., Akurholts ehf. og Veiðifélags Laxár á Ásum var vísað frá með þeim rökum nefndarinnar að kærendur eigi ekki lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Kröfur annarra kærenda voru hins vegar teknar til efnismeðferðar.
Í úrskurðinum segir m.a. að yfir allan vafa sé hafin sú lagaskylda allra leyfisveitenda að taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum þeirra framkvæmda sem til umfjöllunar eru og kynna sér matsskýrslu framkvæmdaaðila. Í rökstuddri afstöðu leyfisveitanda verði að felast efni rökstuðnings sem uppfyllir áskilnað 22. gr. stjórnsýslulaga þar um.
Þá segir að álit Skipulagsstofnunar hafi verið þess efnis, að helstu neikvæð áhrif fyrirhugaðs fiskeldis fælust í aukinni hættu á að sjúkdómar og laxalús bærust í villta laxfiskastofna á svæðinu og að regnbogasilungur slyppi úr eldi í miklum mæli og kynni að hafa neikvæð áhrif á orðspor viðkomandi veiðiáa ef hann veiddist þar í umtalsverðu magni.
Í starfsleyfinu hafi hvergi verið nefnt að mat á umhverfisáhrifum hafi farið fram og að álit Skipulagsstofnunar þar um liggi fyrir. Þá segir í úrskurðinum, að ekki verði fram hjá því litið að án tilvísunar til álits Skipulagsstofnunar og umfjöllunar um einstök efnisatriði þess, eftir því sem atvik gefa tilefni til, sé ekki við því að búast að aðili geti skilið hvers vegna niðurstaða máls hefur orðið sú sem raun varð á.
Loks væri ekki vikið að því í starfsleyfinu hvort mat á umhverfisáhrifum á mismunandi valkostum framkvæmdarinnar hafi farið fram.
Mynd og texti af bb.is